Viðbrögð alþjóðasamfélagsins reiðarslag

Viðtal Hilmu Gunnarsdóttur blaðamanns við Guðrúnu Margréti Guðmunsdóttur mannfræðing í Blaðinu.


Um þessar mundir er ástandið tvísýnt í Mið-Austurlöndum. Síðustu daga hefur Ísraelsher látið sprengjum rigna yfir Líbanon. Fjölmargir hafa látið lífið og Líbanir flýja heimili sín og allar þær hörmungar sem stríðið hefur skapað. Fjölmiðlar flytja okkur fréttir sem oftar en ekki eru einfölduð sýn á flóknum veruleika og oft er erfitt fyrir okkur Vesturlandabúa að henda reiður á hinu raunverulega ástandi.


Guðrún Margrét Guðmundsdóttir þekkir þennan heimhluta betur en flestir
Íslendingar en hún bjó í 10 ár við Persaflóa og var gift líbönskum manni. Blaðamaður Blaðsins hitti Guðrúnu á notalegu kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og spurði hana um búsetu á framandi slóðum, tvíhyggju fordómanna og hvaða máli það skiptir hver hefur valdið á sinni hendi.


"Kynni mín af Mið Austurlöndum hófust árið 1985. Faðir minn fékk þá vinnu hjá þýska fyrirtækinu SIEMENS og öll fjölskyldan flutti út til Qadar. Mánuði síðar hélt ég upp á 16 ára afmælið mitt. Ég var með heimþrá í tvo daga en tók svo gleði mína á ný. Ég eignaðist nýja vini og undi glöð við mitt í þessu framandi landi. Það má segja að ég hafi lifað ákveðnu gervilífi að því leyti að ég var ekki beinlínis hluti af samfélagi landsins. Ég gekk í breskan skóla, átti vini sem flestir voru af vestrænu bergi brotnir og tilheyrði ákveðnum menningarkima. Sjö mánuðum eftir að kom til Qadar hitti ég fyrrverandi manninn minn. Ég var þá aðeins 16 ára gömul en hann 25 ára."
Stuttu eftir að Guðrún hitti unnusta sinn var faðir hennar færður til í starfi og fjölskyldan fluttist öll til Dubai. Guðrún gekk þar í alþjóðlegan skóla líkt og í Qadar en hún var stöðugt með hugann við hina nýfundnu ást og þegar hún var 18 ára gömul fluttist hún aftur til Qadar til þess að vera með unnustanum og vinna á hóteli. Þau bjuggu saman í Qadar allt til ársins 1992.
"Eldri dóttir okkar fæddist árið 1990, sex mánuðum áður en Persaflóastríðið skall á. Á þeim tíma fékk ég nasaþefinn af því hvernig það er að búa á stríðshrjáðu svæði, upplifði orrustuflugvélar fljúga fyrir utan gluggan og fann á eigin skinni þá hræðilegu óvissu sem slíkt ástand skapar innra með manni. Ég fór heim til Íslands um tíma til þess að komast burt frá þessu en fór aftur út þegar stríðinu lauk. Árið 1992 fæddist yngri dóttir mín og við fjölskyldan fluttumst til Yemen þar sem við bjuggum í tvö ár. Þar þurftum við líka að flýja stríðsástand þar sem Suður og Norður hlutinn áttu í borgarastríði. Við fórum til Kúveit þar sem eiginmaður minn fékk vinnu en þá var ég búin að fá mig fullsadda af stríði og óöryggi auk þess sem hjónabandið var að hruni komið. Ég ákvað því árið 1995 að skilja og flytja heim til Íslands með dætur mínar tvær."


Orðræðan einsleit


Guðrún hefur rýnt mikið í fréttaflutning vestrænna fjölmiðla af innrás
Ísraela og þá orðræðu sem ríkjandi er þegar fjallað er um þessi mál. Hún segir það ljóst að Ísraelar hafi tögl og haldir í umræðunni og hafa völdin til að skilgreina ástæður og nauðsyn árásarinnar á mjög einfaldan og næstum því barnalegan hátt.
"Þeir nýta sér þær neikvæðu staðalmyndir sem búnar hafa verið til, einkum í kjölfar 11. september og segja hluti eins og ,,Hizballah eru málaliðar undir verndarvæng öxulveldis hins illa sem nær allt frá Damascus til Teheran".
Þetta hefðu varla talist skiljanleg röksemdarfærsla fyrir árásum fyrir þann atburð.Ísraelar segjast vera að ráðst gegn Hezbollah og séu þess vegna tilneyddir til þess að ráðst inn í Líbanon. Það er líkast því að ef þegar IRA ástundaði sín hryðjuverk að þá hefði breski herinn tekið sig til og byrjað að sprengja Dublin.
Það alvarlega í öllu þessu máli hlýtur að vera að nú hefur skapast orðræða sem sem réttlætir þar að skemma, særa og drepa. Þessi málflutningur er allur byggður á fordómum og staðalmyndum. Sú staðreynd að við skulum samþykkja árásir á saklausa borgara er ótrúleg. Ég tel að ástæðurnar megi rekja til þess að í fjölmiðlum er búið að búa til mjög sterka óvinahugmynd um múslima og araba. Ef þessi innrás hefði átt sér stað fyrir 11. september 2001 þá hefði staðan verið allt önnur og Vesturlandabúar ekki haft neinn skilning á þessu. Staðan er orðin mjög alvarleg þegar staðalmyndir eru orðnar svo sterkar að hægt sé í skjóli þeirra að komast upp með hræðilega hluti án þess að þurfa að skýra sitt mál."
Ljóst er að Vesturlandabúar hafa fremur einsleita mynd af íbúum
Mið-Austurlanda og jafnvel múslímum almennt og segir Guðrún að þeir virðist vera orðnir hinir einu sönnu ,,hinir" í okkar augum, þ.e. þeir séu allt það sem ,,við" Vesturlandabúar erum ekki. Þessu sé stillt upp í við og hinir tvíhyggju og það útskýri það m.a. hvers vegna hægt sé að setja Hamas, Hezbollah, Íranir og Sýrlendingar, araba og jafnvel alla múslíma undir sama hatt.
"Á þennan hóp er svo settur merkmiði sem á stendur "óskynsemi og ofbeldi". Þessar hugmyndir eru gríðarlega sterkar og þær eru undirbyggðar af vestrænum ráðamönnum og fjölmörgum fræðimönnum. Þetta sýnist mér vera ástæðan fyrir því að við fordæmum ekki unnvörpum morð á saklausum borgurum. Ísraelsher tala um að þeir séu í raun að vinna í þágu alþjóðasamfélagsins og vísa í samþykkt 15.59 því til stuðnings. Sú samþykkt var gerð þegar Ísraelar yfirgáfu S-Líbanon og fól í sér að ríkisstjórninni væri skylt að afvopna skæruliða og hryðjuverkasamtök. Ísraelar líta á það sem svo að Líbanon hafi ekki sinnt þessu og því verði að ráðst inn í landið. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ég held að menn séu löngu búnir að glata tölunni yfir þæralþjóðasamþykktir sem Ísraelar hafa brotið í bága við."


Meðvirkni alþjóðasamfélagsins


Guðrún segir ljóst hver hefur skilgreiningarvaldið og að alþjóðasamfélagið tipli á tánum í kringum ráðamenn í Ísrael. "Í mínum huga sé ég fyrir mér ráðamenn í Ísrael í hlutverki ofstopafulls heimilisföður sem við gerum okkar besta til að styggja ekki. Ef við reitum hann til reiði er fjandinn laus og við verðum fyrir meira ofbeldi og sársauka. Tony Blair sagði t.d. að það væri nauðsynlegt að senda inn friðargæslusveit inn í Líbanon til þess að koma í veg fyrir að Hezbollah ráðist gegn Ísraelum til þess að þeir þurfi ekki að grípa til meira ofbeldis. Það er ekkert tillit tekið til saklausra borgara. Þetta er einskonar meðvirkni alþjóðasamfélagsins."
Að mati Guðrúnar opinberar innrás Ísraelsher í Líbanon hinar fordómafullu hugmyndir um araba sem ríkjandi eru á Vesturlöndum. "Við verðum að reyna að skilja það hatur sem sumir arabar bera til Vesturlanda. Margt sem Vesturlönd hafa gert á þessu svæði opinberar aðeins ákveðna eiginhagsmunabaráttur og það er að mörgu leyti skiljanlegt hversvegna öfgahópar spretta upp. Misrétti, kúgun og fátækt ala af sér mannvonsku og öfgar."


Blæja og háir hælar


Guðrún hefur verið framarlega í flokki hér á Íslandi þegar kemur að
jafnréttisbaráttu og hún skilgreinir sig sem feminista.
"Meðan ég bjó í Mið Austurlöndum var ég ekki feministi og ekki meðvituð á neinn hátt. Þegar ég gifti mig gekk ég þó inn í mjög hefðbundin
kynjahlutverk algjörlega gagnrýnislaust. Það segir kannski meira en mörg orð um stöðu kynjanna á Íslandi."
Blæja sú sem margar konur í Mið Austurlöndum hefur orðið mörgum hugleikinn og er hún jafnvel talinn vera tákn um þá kúgun sem konur í þessum heimshluta sæta. Guðrún segir myndina þó ekki vera svo einfalda. "Ég sé engan mun á blæju þeirri sem konur í Mið-Austurlöndum bera og þeirri kröfu um kynþokka sem vestrænar konur þurfa að standa undir. Hvorttveggja er þetta tákn um að við séum bundnar af feðraveldinu þó birtingarmyndin sé ólík. Það er ekki tákn um vald að ganga um á háum hælum eða hylja sig með blæju. Hinsvegar getur verið að sumar konur reyni að beita þessum tækjum til valda því ekkert annað er tiltækt. Auðvitað má ekki gleyma því að hér á Íslandi ríkir lagalagt jafnrétti kynjanna, öfugt við það sem tíðkast í flestum löndum Mið-Austurlanda."