Ævintýraferð Mahers um Snæfellsnes og Borgarfjörð - plús veiðiafrek hans

Eins og fram kom í pistlinum um veisluna fór Maher Hafez þaðan með Akranesfjölskyldunni okkar og Guðrún S. hefur nú sent mér þessa líflegu frásögn um ævintýri hans næstu tvo dagana á eftir.

Á miðvikudagsmorgni 13. júlí, eftir morgunverð hjá Ingu og Jóni, var haldið af stað í Borgarfjörðinn. Veður var lágskýjað en úrkomulaust svo ekki sást mikið til fjalla í Hvalfirðinum, en Maher er ákaflega hamngjusamur með þess konar veður svo allt var í góðu lagi hans vegna. Eftir akstur um Ferstikluháls og Dragháls yfir í Skorradal fundum við sólina við enda vatnsins, þá held ég að Maher hafi áttað sig á því hver hún var þessi fjallasýn sem við söknuðum svo mjög.

Þar sem við stoppuðum á veginum var hrossahópur á beit innan girðingar. Nokkur þeirra komu strax að taka á móti okkur. Þar fékk okkar maður afar áhugavert myndefni fyrir símann sinn, auk þess sem mátti klappa þeim í bak og fyrir. Hann er alveg dolfallinn fyrir hrossunum okkar og fjallakindunum sem ganga villtar allt sumarið. Og ekki varð hann síður uppnuminn þegar við sögðum honum frá því að hross eru líka rekin á afrétt, þar sem þau ganga villt allt sumarið. Ég held að núna eigi hann sér draum um að koma til Íslands í september til að komast í íslenskar fjár- og stóðréttir, upplifa þessi villtu dýr koma til mannabyggða.

Áfram var haldið um Hestháls yfir í Bæjarveit, þar var stoppað við nýja veitingastaðinn í Fossatúni. Þar var að vísu lokað, Maher til mikillar undrunar, en útsýnið af pallinum þar, bæði til fjalla og yfir Grímsána, var engu að síður frábært.

Næst var haldið að Deildartunguhver og Maher fræddur um hann og hverning vatnið rennur alla leið út á Akranes. Síðan var haldi í Reykholt, þar sem við gengum um staðinn og skoðuðum Snorralaug og fleira. Svo voru það Hraunfossar, Húsafell og áfram upp að Kalmanstungu. Þar sem nú var orðið léttskýjað sást afar vel til fjalla og inn á jökul. Niður afleggjarann að Kalmanstungu var verið að reka hrossahóp, sennilega 30 - 40 hross, svo nú var stoppað í vegkantinum og Maher fór út og stillti sér upp fyrir aftan bílinn með (video)símann sinn og myndaði hrossin koma hlaupandi eftir veginum framhjá bílnum. Ég held að þetta atvik hafi algjörlega toppað allt annað sem Maher upplifði þennan dag, sem hann þó að öðru leyti var ákaflega ánægður með.

Síðan var ekið niður Hvítársíðu og að Reykholti þar sem við borðuðum síðbúinn hádegisverð. Eftir það fórum við niður Stafholtstungur og Vesturlandsveg um Borgarnes og út á Skaga. Um kvöldið var síðan farið inn að Glym á Hvalfjarðarströnd að borða. Eftir matinn var haldið inn að Hvalstöð, þar sem Maher var fræddur um veru hersins þar og hvalveiðar. Við gengum um planið þar sem hvalurinn var dreginn upp og skorinn og Jón, sem gamall hvalskurðarmaður, lýsti fyrir okkur hvernig var unnið á planinu.

Að morgni fimmtudags var haldið snemma af stað til Stykkishólms, þar sem við áttum bókað í eyjasiglingu um Breiðafjörðinn klukkan 11. Þar var siglt milli eyja og skerja og skoðaðir allskonar klettar og fuglalíf, auk þess sem skipstjórinn sagði sögur af ýmsum atburðum sem þarna hafa átt sér stað. Toppurinn á þessum túr var þó, þegar dreginn var fullur poki af alls konar skeljum, kröbbum, ígulkerjum o.fl. og farþegum boðið að smakka.
Þarna smakkaði Maher í fyrsta sinn ýmsar tegundir af skelfiski beint úr sjónum. Áður en hann smakkaði sagðist hann hafa verið viss um að þetta væri vont og var jafnvel að hugsa um að biðja um salt á fiskinn. Honum fannst skelfiskurinn hins vegar afar góður og var ófeiminn við að biðja um meira og meira og meira.......

Við Breiðafjörðinn var frekar kalt og þoka svo ekkert sást hvorki til sjávar eða fjalla. Við fórum því beina leið aftur yfir á sunnanvert Snæfellsnesið, þar sem var ágætlega hlýtt og léttskýjað. Áfram var haldið, með stoppum, að Arnarstapa. Þar gengum við klettabrúnina, skoðuðum fuglana gargandi í klettunum, brimið og höfnina, þar sem kallarnir voru að landa afla og þrífa bátana. Næsta ferð á Snæfellsjökul var kl. 5, en þar sem sú ferð tekur 2 tíma, dagurinn orðinn langur og eftir að var að keyra rúmlega tvo tíma til baka á Skaga, ákváðum við að sleppa þeirri ferð og stoppa heldur lengur í frábæru umhverfi á Arnarstapa.

Heim komum við síðan klukkan langt gengin í átta. Þar beið dýrindis kvöldverður hjá Ingu og Jóni. Og ekki var dagurinn búinn!!!
Um klukkan 10 var haldið til hafnar. Guðmundur og Þórunn eiga lítinn skemmtibát, svo næst fórum við á sjóstöng. Þar veiddi Maher sinn fyrsta fisk og hann veiddi þá marga, bæði þorsk og ýsu, en grun höfum við um að sá stóri hafi sloppið.
Við sögðum Maher frá þeim sið fiskimanna að gorta af veiðinni og að segja sögur um hvernig þeir misstu þann stóra eftir karlmannlega baráttu. Svo þegar til Sýrlands kemur getur hann lýst þeim stóra sem hann missti og veit að "sá stóri" fer stækkandi eftir því sem lengra líður og hann segir söguna oftar. Fyrir okkur var það alveg frábær upplifun að sjá veiðiáhugann grípa Maher og hann renna aftur og aftur til að fá fleiri og stærri fiska.
Að landi var komið vel eftir miðnætti og það var þreyttur, en alsæll Maher sem fór að sofa þetta kvöld.

Á föstudagsmorgun var sofið út fram undir hádegi, þá var léttur hádegisverður hjá Ingu og Jóni. Nú var komið að því að skila Maher. Við fórum lengri leiðina, um Hvalfjörð, stoppuðum inní Botnsdal og víðar á leiðinni.
Við Laxá stoppuðum við þar sem tveir menn voru við veiðar. Þeir voru auðsjáanlega ekki að fá neinn fisk, svo Maher sagði að rétt væri að hann færi og kenndi þeim hvernig ætti að veiða, vanur maðurinn. Síðdegis var Maher síðan færður í öruggar hendur Ragnheiðar Gyðu og Oddrúnar.