Fögnuður hjá fimmtán jemenskum stúlkum - fleiri nöfn eru komin til mín

Það verður ekki á VIMA-félaga logið, þeir eru snarir í snúningum. Stúlkurnar fimmtán eru búnar að eignast "foreldri/foreldra" og ég hef þegar sent upplýsingarnar út til þeirra YAROkvenna. Þær urðu yfir sig kátar og þó frídagur sé í Jemen í dag (þeirra sunnudagur) eru þær nú þjótandi út og suður að tilkynna stúlkunum að þær fái að vera í skóla í vetur og sögðust búast við að það vekti óblandna gleði.

Þar sem fleiri hafa látið í ljósi áhuga hef ég beðið um fleiri nöfn og á von á að fá fimm nöfn nú á eftir og raunar er ekki hörgull á þeim og hægt að bæta við lengi enn. Svo ég vona að einhverjir góðviljaðir bætist við enn.

Í imeili sem ég fékk frá Catherine Hanafi í gær sagði hún: "Mér finnst stórkostlegt hvað Íslendingar eru að gera. Þetta hefur hleypt okkur kappi í kinn og við sjáum fram á að margar stúlkur sem ella hefðu ekki getað byrjað í skóla eða haldið áfram fá nú tækifæri."

Benda má á að þær stöllur segja að fólk skuldbindi sig ekki til þessa stuðnings nema ár í senn og síðan má auðvitað vona og vænta þess að fólk vilji halda áfram að eiga sínar fósturstúlkur.
Ein styrktarkonan sagði að hún vildi styrkja sína "dóttur" næstu fimm ár og fínt að hafa það á hreinu en skuldbindingin er ekki nema fyrir eitt ár strangt tiltekið.

Takk mikið vel og elsku látið mig heyra í okkur. Nóg af fúsum námsstúlkum bíður.