Fimmtán stúlkur bíða okkar--- hafið nú samband

Góðan daginn öll
Ekki laust við haustbragð af golunni þegar ég var að bera út í morgun.

Beint að efninu: þær forsvarsmenn YARO samtakanna í Jemen, Catherine Hanafi og Nouria Nagi hafa sent mér lista yfir nöfn 15 stúlkna á aldrinum 7-13 ára sem eru á biðlista að komast í skóla.
Auk þess bíða 250 aðrar en YARO stefnir að því að útvega þeim öllum stuðningsmenn á næstu tveimur árum.

Eins og ég sagði fyrr kostar það 200 dollara á 'ARI að styrkja stúlku til náms í Jemen. Það eru um 14 þúsund krónur.

Fyrir þá upphæð greiðir YARO skólabúning, skólatösku, skólavörur, mat meðan er verið í skólanum og veitt er aðstoð í bækistöðvum samtakanna við heimanám. Á þessum lista eru nokkrar stúlkur 12-13 ára sem eru í 1.bekk, þe. hafa ekki haft efni á að byrja í skóla fyrr en YARO kom þeim til aðstoðar.

Ýmsir þeirra sem vilja aðstoða mig við þetta segjast hafa áhuga á að styrkja eina sérstaka stúlku og fá nafn og aldur og helst mynd af henni. Það er allt til mikils sóma og ekkert flókið við það.

Það sem ég hef hug á er að útvega styrktarmenn handa þessum fimmtán stúlkum og auk þess fæ ég svo fleiri nöfn þegar þær eru gengnar út. Þá mun Fatimusjóður greiða fyrir þær eftir því hvað stjórn VIMA ákveður.

Einnig er nú unnið að því að koma því í kring að Fatima í Thula komist í framhaldsnám en hún hætti í skóla eftir skyldunámið.
Hugsanlegt er líka að við getum styrkt aðra til framhalds og háskólanáms.

Allnokkrir VIMA félagar hafa þegar greitt 10 þús. krónur og því spyr ég þá hvort þeir vilji fá sína sérstúlku??? Það þýðir að þeir borga 4 þús. til viðbótar, annað hvort nú eða seinna í vetur. Þurfa bara að láta mig vita.

Gjörið svo vel og hafið samband við mig hið allra allra allra fyrsta ef þið viljið á einn eða annan hátt leggja þessu lið. Ég fer til útlanda seinni partinn í næstu viku og verð í burtu septembermánuð ef guð lofar. Mér þætti gott ef við gætum sent þeim nöfn styrktarmanna sem vilja hafa þann hátt á sem ég lýsti áður en ég fer.

Vonast til að hitta ræðismann Íslands í Jemen á morgun eða hinn, en hann er nýkominn til landsins og mun biðja hann að tala við YARO-konur eftir að hann kemur heim. Ég reikna sömuleiðis með því að skreppa til Jemens í fáeina daga í nóvember og þær stöllur hafa boðið mér að koma í heimsókn í bækistöðvar þeirra og hitta þá þau börn sem þegar eru orðnir styrkþegar.

Ég ætla svo að taka fram að FATIMUstjóður mun einnig senda árlega upphæð til kvennaverkefnisins í Sjabra/Sjatilaflóttamannabúðunum í Líbanon eins og við höfum gert þrívegis áður.

Mælist eindregið til að menn hafi samband. Þó svo reglugerð sjóðsins sé ekki tilbúin finnst mér rétt að þeir einstaklingar sem vilja taka sínar "fósturstúlkur" sem fyrst geti gert það.

Bara senda mér imeil eða hringja. Látið það ekki dragast. Þær/þeir sem hafa þegar ákveðið sig þurfa ekki að ítreka það og ég læt þá fá nöfn.