Glaðir Ómanfarar hittust í gær ---fréttir af Jemenmálum

Í gær, mánudag, var fundur með hópnum sem fer í fyrstu ferðina til Ómans 30.janúar n.k. Við renndum yfir áætlunina sem hefur tekið smávægilegum breytingum - örugglega til hins betra- ég deildi út blaði með upplýsingum um Óman sem ég tíndi saman og Hussein Sjehadeh talaði um Óman en þar er hann manna kunnugastur. Svo var vitaskuld te, kaffi, rúsínur og döðlur á boðstólum og lítilsháttar af gómsætur sýrlenskum smákökum.

Það var góð stemning og Sjehadeh hefur boðist til að senda mér vídeómyndir um konur í Óman og fleiri spólur og því stefnum við að því að hittast aftur síðar í vetur, kannski áður en aðventan gengur í garð og horfa á það saman.

Þessi 27 manna hópur er að því leyti sérstakur að 24 hafa farið áður í VIMA-ferðir. Sumir eru nú að fara fjórða skipti og margir í 2. eða það hið 3. og hlýtur það bara að segja eitt að fleiri en ég verða hrifnir af ferðum til þessa heimshluta þegar þeir komast í kynni við hann.

Annað: Jemenstúlknamálið er komið í fullan gang. Samtökin í Jemen sem ég hafði hendur í hári á eftir nokkurt vesen sýna vilja okkar til að styrkja stúlkur til skólagöngu, mjög mikinn áhuga og veita upplýsingar í gríð og erg. Ef einstaklingar vilja taka að sér að styrkja stúlku til náms frá 6 ára aldri kostar það 200 dollara á ári. Það er svo grátlega lítið að ég trúi ekki öðru en margir taki við sér.
Um þessar mundir er verið að semja sérstaka reglugerð um Fatimusjóðinn og þegar hún liggur fyrir ætlum við að gera skurk í þessu, kynna málið og leita til fyrirtækja. En stuðningurinn byggist þó fyrst og fremst á framlagi einstaklinga og vonandi sem flestra félagsmanna í VIMA. Bið ykkur að hafa samband eða leggja beint inn á reikninginn, þið sjáið númerið hér á síðunni eins og ég hef áður bent á. 200 dollarar á ári=13 þúsund krónur! Vitiði ég trúi ekki að okkur muni um það.

Rétt í framhaldi af þessu er nauðsynlegt að ferðalangar átti sig á því að ALLIR sem fara í ferðirnar verða að skrá sig í VIMA. Það er skilyrði fyrir þátttöku og setur engann á hausinn að neinu ráði þar sem árgjaldið er 2.000 kr. Það var líflegt starf í VIMA sl vetur og verður vonandi svo á komandi vetri. Ef menn hafa enga sérstaka löngun til að vera áfram í félaginu, geta þeir bara borgað árgjald fyrir ferðina og síðan sagt sig úr félaginu. Sem betur fer hafa fáir gert það og líta svo á að það sé bæði gott og skemmtilegt að hitta það forvitna og góða fólk sem hefur safnast í þetta félag. En þetta er tekið fram að gefnu tilefni.

Það er gleðilegt frá því að segja að Sýrlands/Jórdaníuferðin er fullskipuð en með ákveðnum sveigjanleika má þó bæta við nokkrum til viðbótar. Jemen/Jórdanía fer svo vonandi á skrið innan tíðar. Miklar olíuverðshækkanir upp á síðastið hafa orðið til þess að flest öll flugfélög hafa hækkað verðið á farmiðum. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma mun þó lukkast að halda VIMA ferðum nokkurn veginn á því verði sem upp hefur verið gefið. Insjallah