Glæsilegar undirtektir í Jemen

Ég get ekki stillt mig um að segja ykkur að það streyma inn bréfin frá Jemen eftir þessa litlu klausu sem ég skrifaði í Yemen Times um að við hefðum áhuga á að styrkja stúlkur í nám. Flest eru frá útlenskum konum sem vinna við ýms konar hjálparstörf í landinu, m.a. við heilsugæslu og menntun.
Fékk adressu hjá konu sem sér um að fylgja málinu eftir og tekur á móti greiðslum og sendir upplýsingar um þær stúlkur sem styrks njóta. Upphæðin á ári er svo ótrúlega lág að ég fæ ekki betur séð en við getum hjálpað alla vega einum tíu stúlkum, en þá yrði að skuldbinda sig næstu 5-6 ár því margar þeirra hafa ekki lokið menntaskóla.
Einnig gæti verið snjallt að styrkja stúlkur strax frá því skólaskylda hefst - skólaskylda sem þessi samtök mundi þá ábyrgjast að væri framfylgt og reglulegar fréttir mundu fást af stúlkunum og framgangi þeirra.
Vildi bara segja ykkur þetta, ekki síst þeim sem hafa lagt pening í þetta þarfa og góða mál og vonandi bætast nú enn fleiri í hópinn.
Þetta skýrist svo enn betur á næstunni en ég er lukkuleg með þessa hressilegu byrjun því ég var orðin dauf í dálkinn yfir því hvað allt silaðist áfram.
Munið reikninginn hér til hliðar Hentug reikningsnúmer. Hvort sem það eru 500 kr eða 5000 kr eða allt þar á milli kemur að ótrúlegu gagni. Vonast til að þið látið í ykkur heyra.