Heimboð í Damaskus

Sýrlenski ræðismaðurinn sem kom fram í dagsljósið í gær er fullur harms yfir því að dráttur varð á því að hann svaraði. Hann hringdi frá Sýrlandi í gær og tilkynnti mér að hann vildi allt fyrir okkur gera og mundi efna til boðs fyrir næsta VIMA hóp sem kemur til Damaskus um páskana.
Ég sá ekki ástæðu til annars en þiggja þetta vinalega boð með þökkum.

Hann virðist hafa alls konar hugmyndir um hvernig megi auka áhuga Sýrlendinga á Íslandi líka. Við höfum ákveðið að hittast og ræða þau mál og fleiri þegar ég verð í Damaskus- ef guð lofar- í nóvember n.k Fróðlegt að heyra hvað hann er að pæla.

Þá sakar ekki að nefna í framhjáhlaupi að ég bíð nú í ofvæni eftir að fá áritun til Írans en þar hyggst ég verja septembermánuði næst komandi. Ætla að fara vandlega yfir áætlunina fyrir árið 2006 og skoða þau hótel ofl. sem ég þekki ekki. Einnig væri ráð að hitta fólk að máli og fræðast um sitt af hverju, ekki síst hef ég auðvitað áhuga á málefnum kvenna eins og fyrri daginn.

Margir hafa spurt mig hvenær Arabíukonur komi út í kilju og nú hefur Mál og menning tjáð mér að það verði seinni hluta september. Einhverjar bækur eru þó enn til í nokkrum búðum.