Jemen/Jórdaníufarar hittust á Litlu Brekku

Kátína ríkti hjá hópnum sem fór í maí s.l til Jemen og Jórdaníu en hann hittist í Litlu Brekku í gærkvöldi, fimmtudagskvöld. Glöddust menn yfir endurfundum og nokkrir höfðu á orði að einkum og sér í lagi Jemen hefði skilið eftir svo djúp áhrif að þá langaði til að fara þangað aftur eftir tvö þrjú ár.

Elín Guðmannsd kom með disk og Inga Hersteinsd var með myndvarpa og disk og var þessu varpað upp á tjald og síðan óuðum við og æuðum að horfa á þessar makalausu myndir úr ferðinni. Margir voru með albúm troðin af myndum og höfðu allir ánægju af að rifja upp ferðina á þennan hátt.

Við fengum gómsætis salat að borða og sumir flottuðu sig á súkkulaðiköku á eftir. JK gaf öllum viðstöddum hópmyndina sem var tekin fyrir brottför frá Sanaa og margir skiptust á myndum. Einar hafði áður látið mig hafa eintök af öllum sínum diskum og slatti þeirra mynda er komin inn á tenglinn myndir Einars hér á síðunni. Elín lét mig líka hafa eintak af sínum diski og Inga hafði góð orð um að gefa johannatravel eintak af sínum myndum og þegar tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir verður komin yfir erfiðasta hjallann í flutningsmálum sínum, bið ég hana að skutla nokkrum inn á síðuna.

Svo var setið að skrafi og skafli og undu menn sér vel og margir ætla að mæta á fyrirlestur Hussein Sjehadeh kl 15 á laugardag menningarnætur í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Menn kvöddust svo með blíðu og hlakka sömuleiðis til vetrarstarfs og októberfundar sem verður sagt nánar frá seinna.

Mér láðist því miður að athuga hverjir úr hópnum skulda félagsgjöld en bið þá sem ekki hafa gert upp að vippa 2.000 kr. inn á Vima reikninginn. Sjá Hentug reikningsnúmer. BIÐ YKKUR LENGSTRA ORÐA AÐ DRAGA ÞAÐ EKKI. Það á raunar einnig við um aðra félaga þó það sé gott að geta sagt frá því að margir hafa gert skil.