Miðvikudagshugleiðingar um eyðublöð og félagafjöld ofl.

Góðan daginn
Það hefur dregist úr hömlu að skrifa nokkur vísdómsorð á síðuna en nú ætla ég að bæta úr því eftir bestu getu.

Í fyrsta lagi langar mig að ítreka að menn borgi félagsgjöldin sín og þá ekki síður að hvetja menn til að útvega fleiri félaga í VIMA. Við þurfum á því að halda og drjúgur áhugi er á þessum félagsskap svo ég hvet hvern og einn að koma með amk einn nýjan félaga og það hið skjótasta.

Í öðru lagi er vert að minna á fyrirlestur Husseins Sjehadeh í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu á menningarnótt, n.k. laugardag kl. 15 e.h. Þar talar hann um misskilning milli menningarheima og til sýnis eru myndir sem hann hefur tekið í Óman. Sömuleiðis hefur safnið útvegað nokkra muni og gripi frá Arabalöndum og hefur til sýnis og lesið verður úr barnabókum á íslensku, dönsku og arabísku daginn langan. Þarna líður um sali hin undursamlega ómanska mirrulykt en Óman er frægt fyrir mirru. Sagt að til Dhofar í suðurhluta Ómans hafi drottningin af Saba leitað til að kaupa mirru að færa Salómon kóngi í Jerúsalem.
Sjehadeh hefur sérstakan áhuga á að hitta Ómanfarana okkar svo ég vona þeir fjölmenni.

Ég hef staðið í þessu einstaka eyðublaðaveseni síðustu daga vegna fyrirhugaðrar ferðar minnar til Írans nú í september. Mér skilst að síðan ég fór til Íran í febrúar s.l hafi verið skipt um áritunarumsóknareyðublöð og láðist aðeins að láta mig vita. Þess vegna er umsóknin mín ekki gild og mun ég nú senn hefjast handa á nýjan leik og hef fengið nýtt umsóknarblað í hendur til að skemmta mér við að fylla út. Ferðaskrifstofustýran í Teheran, frú Shahpar hefur fullvissað mig um að þetta muni allt takast að lokum en líklega fer ég nokkrum dögum seinna en áformað var fyrir vikið. Það er sumsé ekki sama eyðublað og eyðublað.

Ein helsta ástæða þess að ég hvet til að félagar þyrpist í VIMA er að nú hef ég fengið augastað á nýjum áfangastað; hinn harðsnúni kjarni félagsmanna hefur látið í ljós áhuga á að við bætum við fleiri löndum og því hef ég eftir nokkra íhugun dottið niður á lönd tvö í jaðri Miðausturlanda, þ.e. Armeníu og Azerbajan. Samningar eru þegar hafnir við ferðaskrifstofumenn á þessum stöðum og vonandi kemst ég til Armeníu í rannsóknarleiðangur nú í septemberlok. Vona að þetta mælist vel fyrir en of snemmt að tala um dagsetningar enn sem komið er. Mér þætti þó gaman að heyra í ykkur og hvaða skoðun þið hafið á þessum löndum.

Það hefur gengið brösuglega að koma Jemenverkefninu mínu af stað, þ.e að styrkja ungar stúlkur til náms. Einkum vegna þess að ekki hefur náðst almennilegt samband við fólk sem gæti haldið utan um þetta af ábyrgð.
Ég skrifaði nýlega grein í Yemen Times og hef fengið miklar og góðar undirtektir. Mun nú vinna úr þeim bréfum og hafa samband við þetta fólk og bind einnig vonir við ræðismann Jemens sem virðist áhugasamur um að koma málinu á rekspöl. Læt ykkur fylgjast með og þakka ástsamlega að þó nokkrir leggja fasta upphæð inn á reikninginn minn vegna þessarar hugmyndar minnar sem mun náttúrlega verða að veruleika fyrr en síðar. Hugsast getur að ég þurfi að skjótast til Jemen í nóvember til að hnýta síðustu hnútana og svo gæti þetta allt farið á fullan skrið.

Sem sagt: sendið mér eða gjaldkera Guðlaugu Pétursd. gudlaug.petursdottir@or.is
nýja félaga.
Mætið á fyrirlestur Sjehadeh í Borgarbókasafni á laugardag.
Tjáið ykkur um Armeníu og Azerbajan sem nýja áfangastaði Vima.
Munið fund Ómanfara í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu mánudag 22. ágúst kl. 17,30.
Skráið ykkur hið skjótasta í vorferðirnar, Sýrland er að fyllast og senn er aðkallandi að menn tryggi sér pláss í Jemen/Jórdaníu í maí.

Látið absalútt í ykkur heyra mínir ágætu félagar. Verð dálítið á þeytingi á næstunni og ekki alltaf nærri síma eða tölvu svo næstu tvær vikur skyldu notaðar til að ákveða ferðir.
Látið einnig síðuna ganga til skemmtilegra fjölskyldumeðlima og vina

Sæl að sinni.