Námskeiðin hjá Mími ákveðin

Mímir símenntun hefur beðið mig að halda námskeiðið menningarheimur araba eins og s.l. 3 ár og hefur verið ákveðið að fyrsti tími verði 6.október og sá síðasti er 3.nóv. Þetta eru fimm kvölda námskeið, á fimmtudögum frá kl. 20-22. Mikil aðsókn hefur verið að þessum námskeiðum og oft orðið fjörugar umræður.
Í fyrsta tímanum er talað um islam, inntak trúarinnar og kennisetningar, Múhammeð spámann og boðun hans.
Í öðrum er komið að því eldfima efni staða konunnar í arabalöndum - sem margir hafa einstaklega yfirborðskenndar hugmyndir um.
Í þriðja tíma er rætt um sögu svæðisins sem við skilgreinum sem arabaheiminn- einkum og sér í lagi tuttugustu aldar söguna. Fjallað um tilurð síonismans sem hefur haft margháttuð áhrif á framvindu í arabaheiminum.
Í fjórða tíma er haldið áfram að tala um stofnun Ísraelsríkis og sambúð gyðinga og araba og ekki síst afskipti hins svokallaða alþjóðasamfélags á þau samskipti. Í fjórða tímanum er einnig rædd menningarmál og menntunarstaða ofl. Í hléi er boðið upp á að bragða á arabískum mat.
Í síðasta tímanum er fjallað um stríðið 1991, aðdraganda þess og þær afleiðingar sem það hafði á sambúð/samskipti og þess háttar.

Það gefst varla tækifæri til að beina sjónum að Íraksstríðinu 2003 og því sem síðan hefur gerst og afstöðu arabískra til Vesturlanda. Hugsanlegt er að ég verði með sérstakt eins kvölda námskeið hjá Mími um það viðfangsefni.

Arabíska 1. og 2. byrjar 5.okt. og verður kennt á mánudögum og miðvikudögum.

Verið svo blíð og ljúf að láta þessar upplýsingar ganga því ég veit að margir hafa áhuga á að vita um þessi námskeið. Allar upplýsingar og skráning þegar þar að kemur er hjá Mími.