Ræðismaður kom í leitirnar og Ómanfundurinn 22.ág

Ræðismaðurinn okkar í Damaskus er loks kominn í leitirnar og ritari hans svaraði imeili mínu nú fyrir helgina. Það eru liðnar góðar tvær vikur síðan ég skrifaði og ritarinn sagði að tölvan hefði verið í bileríi og ræðismaðurinn í útlöndum. En hann vildi allt fyrir Íslendinga gera. Þá vitum við það.

Ræðismaðurinn sem skipaður var í Jemen kemur í heimsókn á næstunni og stoppar í viku á Íslandi. Vænti þess að ég geti hitt hann að máli. Það er ágætt að eiga hann að.
Vel að merkja, nú væri ráð að menn færu að tilkynna sig í Jemen/Jórdaníuferðina sem hefst 5. eða 7.maí n.k.

Sýrlandsferðin um páskana er að verða nokkuð vel skipuð en ég get bætt við fimm í viðbót og ættuð þið að koma þessu áleiðis hið fyrsta.

Fundur með Ómanferðalöngum verður í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu 22.ágúst kl.17,30. Flestir hafa tilkynnt sig á fundinn. Þar legg ég fram endanlega ferðaáætlun, við fáum okkur kaffi og tesopa og hjölum um ferðina. Óskað er eftir að menn greiði staðfestingargjaldið á fundinum.

Jemen/Jórdaníufarar úr ferðinni í maí ætla að hittast 11.ágúst. Þau Baldvin og Helena verða þá á landinu og munu taka þátt í gleðskapnum.