Sumar á Sýrlandi? - Send greiðsla til Jemen

Fékk fregnir af því í dag að sýrlensku ráðuneytin sem hlut eiga að máli hafa veitt leyfi til Stuðmanna en þeir báðu mig um að sjá um og skipuleggja hljómleikaferð til Sýrlands næsta vor.
Nú er það sem sagt klappað og klárt og eftir að Stuðmenn hafa lokið Feneyjarferð sem stendur fyrir dyrum, snúa þeir sér vísast að því að kynna ferðina. Ætlunin er að þetta verði vikureisa og ég er búin að draga upp plan og senda út til að fá áætlaðan kostnað. Meiningin er að Stuðmenn haldi tvo hljómleika í Damaskus, annan við Al Azem höllina í gömlu borg og hinn í Óperuhúsinu við Omijadtorg.

Það verður nógu fróðlegt að vita hvernig undirektir þessi Stuðmannaferð fær hjá aðdáendum þeirra. Má búast við að hún verði í dýrari kantinum en það mun væntanlega skýrast á næstu vikum og mánuðum enda ferðin ekki fyrirhuguð fyrr en í byrjun júní.

Í morgun sendi ég greiðslu til YERO fyrir fimm stúlkur sem hafa fengið sína fóstuforeldra sem vilja styrkja þær í skóla. Þar með eru 20 stúlkur að hefja skólagöngu í Jemen sem ella hefðu ekki haft tækifæri.
Einnig er verið að leggja drög að því að veita tveimur stúlkum styrk til háskólanáms og síðan er unnið að því að koma stúlkunni Fatimu í Þúla sem er í rauninni upphafsmanneskja alls þessa - þ.e. að þessi hugmynd kviknaði- í framhaldsskóla. Þetta eins og annað stuð mun hafa sinn gang.

Enn vantar fjóra stuðningsforeldra, athugið að hér er um að tefla fjárhæðina 14 þúsund krónur. Eftir þær snöfurlegu undirtektir sem hafa verið við þessu, þykist ég vita að þið bregðið við og sendið mér nöfn. Hafið bak við eyrað að greiðslunni má skipta í þrennt eða jafnvel borga mánaðarlega rétt rúmar þúsund krónur. Látið frá ykkur heyra fyrir miðvikudagskvöld, allra blíðlegast.

Í dag fékk ég sent vegabréfið mitt, stimplað og fínt með íranskri áritun, frá Noregi. Því helst mín áætlun og er hið mesta tilhlökkunarefni. Fer á fimmtudagsmorgun árla nokkuð. Verð rífar 3 vikur í Íran og fer allvíða um landið. Síðan ætla ég að reka inn nefið í Armeníu og vera þar í viku.
Býst við að senda pistla heim og vona að menn verði ötulir að kíkja í heimsókn á síðuna á meðan. Set vísast inn á síðuna svona einu sinni áður en ég flýg til Írans, einkum og sér í lagi ef foreldrarnir finnast fyrir jemensku stúlkurnar fjórar.