Vilja menn aðra ferð til Ómans?

Góða kvöldið, góðir hálsar

Fyrirlestur Husseins Sjehadeh í Borgarbókasafninu í dag, laugardag, var sérlega vel sóttur. Nokkrar umræður á eftir og að erindinu loknu gengu áhugasamir á fund Sjehadeh og spurðu hann spjörunum úr. Menn höfðu einnig gaman að því að skoða Ómanmyndir hans sem eru þarna til sýnis svo og gripi og muni frá aðskiljanlegum Arabalöndum sem komið hefur fyrir í glerskápum, ansi hreint smekklega.

Eftir fundinn komu nokkrir að máli við mig og lýstu áhuga á Ómanferð. Eins og ég hef sagt er ferðin í jan-febr 2006 fullskipuð og verður ekki bætt við nema einhverjir gangi úr skaftinu fyrirvaralítið. Því hefur mér dottið í hug að leita álits hjá ykkur: er áhugi á annrri ferð?
Sú mundi þá hefjast um 16.febr. eða svo og vera væntanlega með sama sniði og sú fyrri. Nokkrir hafa þegar skráð sig á biðlista.

Til að af verði er nauðsynlegt að 16 manns ákveði sig og það snarlega. Bið ykkur að íhuga þetta og hafa samband svo ég geti kannað hvort möguleikar eru á þessu. Óhugsandi að bæta núverandi biðlistafólki við nema efnt verði til annarrar ferðar.

Þess vegna er nauðsynlegt að láta heyra frá sér. Ég er nokkurn veginn sannfærð um að Óman er mönnum ekki síðra ævintýri en aðrar ferðir á þessar slóðir.
Ef ég heyri ekki frá ykkur fyrir föstudag þá afskrifa ég dæmið að þessu sinni.


Enn fjölgar í Íranferðirnar í september 2006 og þar get ég tekið fólk á biðlista til áramóta.

Loks er svo velþegið og harla meira en það að nokkrir Jemen/Jórdaníufarar í maí á næsta ári bætist við. Við förum ekki í þá ferð færri en 18.

Áður en ég halla mér á koddann eftir menningardag og Morgunblaðsútburð get ég ekki látið hjá líða að þakka þeim sem hafa ekki beðið boðanna síðan fregnir bárust frá Jemen um að þar væri komin hreyfing á hlutina og hafa greitt inn á Fatimusjóð.