Fjölmennur fundur VIMA á laugardag

EINS og fyrr var félagsfundur VIMA í Kornhlöðunni í gær, laugardag ákaflega vel sóttur og á sjötta tug skrifuðu í gestabókina. Ýmsir nýir og áhugasamir mættu á fundinn og svo varð fagnaðarfundur hjá ýmsum ferðafélögum sem hafa verið saman í ferðum og hyggja margir á flakk með johannatravel á árinu 2006.

Mörður Árnason, Vimafélagi var fundarstjóri af skörungsskap og JK talaði um Jemenverkefni okkar. Rakti aðdraganda að stofnun Fatimusjóðsins sem hefur að markmiði að styrkja jemenskar stúlkur í skóla sem þær ættu ella ekki kost á.

Fjórir nýir félagar bættust í hópinn sem styrktarmenn og fleiri hafa áhuga og hyggjast leggja inn ákveðna upphæð á mánuði. Það þarf ekki að vera há upphæð svo hún komi að gagni, 1000-1200 krónur sem leggist inn á Fatimureikning hjálpar.

Einnig var talað um þau áform stjórnar VIMA að gefa út fréttabréf einu sinni til tvisvar á vetri og gáfu sig umsvifalaust fram í ritnefnd Birna Karlsdóttir og Oddrún Vala Jónsdóttir. Ef fleiri vilja vera með í því er það gleðiefni.

Margir góðir og virkir VIMA félagar hafa ekki netfang eða fara ekki að staðaldri inn á póst svo þetta gæti komið að góðu gagni svo allir geti fylgst með.
Samþykkt var með lófaklappi að efna til árshátíðar, að líkindum stefnum við á hana um miðjan janúar og verður sagt frá því síðar.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur í Miðausturlandafræðum, flutti síðan erindi þar sem hún sagði frá búsetu sinni í fjórum löndum á Arabíuskaga í tíu ár, þegar hún var á aldrinum 15-25 ára. Hún lýsti hvernig sú reynsla hefði verið og hversu margvíslegan lærdóm hún hefði dregið af þessum árum. Þetta erindi mæltist ákaflega vel fyrir og síðan voru lagðar fyrir Guðrúnu Margréti ýmsar spurningar sem hún svaraði greiðlega. Þótti mönnum mikill fengur að hlusta á hana.

Guðlaug gjaldkeri var vinsæl og ýmsir gerðu upp félagsgjöld eða skráðu sig í VIMA og svo var skrafað og skeggrætt um næstu ferðir og áhuga á þeim yfir kaffi og hnallþórum.

Stjórn VIMA er himinlifandi yfir því hvað félagsmenn eru duglegir að sækja fundi og félagsstarf eflist væntanlega enn með fréttabréfi og glaðlegri árshátíð.

JK greindi frá því að nokkrir til viðbótar kæmust í ferðirnar sem fyrirhugaðar eru, Íransferðina í mars vantar enn 2-3 svo verð haldist, vegna veikindaforfalla geta fáeinir íhugað Sýrland/Jórdaníu og Jemen í maí getur tekið amk. fimm til viðbótar. Ég hef áður sagt að það er aðkallandi að menn skrái sig tímanlega vegna þess að alls konar skriffinnska og undirbúningur er hjá okkur, þar sem við erum ekki ferðaskrifstofa með fjármagn eða bakhjarl.

Eins og sagt var frá á fundi ætlar JK svo til Ómans 6.nóv. n.k. til að ganga úr skugga um að febrúaráætlunin sé öll til prýði. Þá er einnig meiningin að fara í nokkra daga til Jemens og hitta "stúlkurnar okkar." Vonandi get ég svo fært styrktarfólki myndir af sínum stúlkum eftir þá ferð. Sú hugmynd kom fram hvort styrktarmenn ættu að senda smágjafir með og ég varpa þeirri ágætu hugsun fram til að menn geti íhugað það.

Takk fyrir góðan fund og leggið endilega orð í belg um það og hvaðeina sem ykkur dettur í hug.