FUNDARBOÐ Á LEIÐINNI - allir á fundinn

Hinn ötuli gjaldkeri VIMA, Guðlaug Pétursdóttir, póstaði í morgun fundarboð til allra þeirra félaga sem hafa ekki netfang - varðandi fundinn í Kornhlöðunni nk. laugardag kl. 14. Við vonum að sem flestir komi þar og hlusti á Guðrúnu Margréti, svo og nokkurn fróðleik sem ég ætla að reiða fram varðandi Jemenverkefnið okkar en þar styrkjum við nú 37 stúlkur til náms sem þær hefðu ella ekki átt kost á.
Einnig hugmyndir VIMA stjórnar um útgáfu fréttabréfs og e.t.v. árshátíð. Þetta er orðinn nokkuð stór hópur og ég er viss um að við eigum fullt af fólki innan okkar raða sem gæti séð um fínustu skemmtiatriði á slíkri árshátíð.

Frammi liggja einnig á fundinum áætlanir um ferðirnar okkar á árinu 2006, örstutt ferðalýsing og svo hvað er innifalið og hvernig á að greiða ferðirnar.

Kaffi/te og vonandi súkkulaðikaka verða seld á viðráðanlegu verði til að gúffa í sig með erindi og skrafi og svo er bara gaman að hitta ferðafélaga, nýja sem gamla og rifja upp endurminningar og hlakka til næstu ferða.
Tekið fram og ætti auðvitað að vera óþarft að nýir félagar eru margvelkomnir á fundinn og ég bið ykkur að láta þetta berast vítt og breitt.

Ástæða er til að lýsa ánægju með það hvað Íransfarar í mars og Sýrlands/Jórdaníufólk í apríl hefur verið snöggt að greiða félagsgjald VIMA og margir eru búnir að borga staðfestingargjöld sín og vonandi bætast fleiri við á næstu dögum. Þetta þarf að vera klárt fljótlega eins og þið sáuð í greiðsluáætlun. Sama gildir um febrúarfólkið til Ómans. Þar er allt undir fegursta kontróli.
Einnig má borga á nefndum fundi ef það hentar betur.

Til Ómanfara sérstaklega: fékk í dag spólur um Óman en í bígerð er að hópurinn hittist upp úr áramótum, fái sér smásnæðing og horfi saman á þessar spólur.

Svo minni ég ábyggilega einu sinni enn á fundinn. Verið stundvís.