Komin heim í heiðardalinn

Margblessuð öll
Lent heilu og höldnu eftir stórkostlega ferð. Að vísu er sálin á vafrinu, líklega á leiðinni frá Armeníu. Þrátt fyrir einstaklega þægilega daga í Vínarborg hættir henni til að vera aðeins seinni á ferðinni. Vona hún detti inn í kvöld eða fyrramálið, það er hreint ekki þægilegt að vera sálarlaus.

En nú hefst sumsé hvunndagurinn af krafti. Byrja að kenna arabísku á miðvikudag og fyrsti tíminn í Menningarheimi araba er á fimmtudagskvöldið.Mér skilst það sé fullskipað í hvorutveggja námskeiðin.

Sé að Ómanfarar hafa brugðið við skjótt og greitt inn á ferðina og takk fyrir það kærlega.

Svo beið mín imeil frá Jemen, þess efnis að nú væri YERO í óðaönn að taka myndir af stúlkunum okkar og þær verða síðan sendar til mín á næstunni. Bendi enn og aftur á að þrír glaðir styrktarmenn geta bæst við enn og Fatímusjóður getur þá styrkt eldri stúlkur sem hafa ekki efni á að komast í háskóla.

Ætla að halda fund með Sýrlands/Jórdaníuhópnum áður en langt um líður eins og ég hef minnst á. Læt vita um það með skikkanlegum fyrirvara og vænti þess að allir sjái sér fært að mæta. Þá þarf einnig að borga staðfestingargjaldið 18 þúsund krónur.

Ég vék að því í pistlunum frá Íran að það er nákvæmlega ekkert vit að fara til Íran í ágúst, of heitt í veðri. Það er ekki hægt að koma við tveimur ferðum í september og þess vegna sendi ég bréf til ýmissa áhugasamra um ferð í mars. Ferðaskrifstofukonan í Íran telur að hægt sé að smeygja marsferð inn en ekki fleiri en 20 komast með í hana.
Allmargir Ómanfarar eru bókaðir í Íran og þeir ganga fyrir í septemberferðina. Ég hef fengið þokkalegar undirtektir við Íransferð í mars en einir sjö komast með til viðbótar og frá þessu þarf ég að ganga fljótlega. Því bið ég fólk að láta heyra í sér og það snarlega. Ítreka þetta enn og aftur. Íransferð er þá fyrirhuguð sirka 2-4 mars og verður dagskráin nákvæmlega eins og septemberferðin og verð hið sama, svo fremi við náum hæfilegum fjölda, þ.e. 20 manns. Fundur með þessum þátttakendum verður líka í október. Svo legg ég land undir fót í nóvember þegar námskeiðunum lýkur og fer þá til Ómans að rúlla yfir ferðaáætlunina og bregð mér vonandi til Jemen að hitta stúlkurnar okkar.

Legg sömuleiðis kapp á að við náum þátttöku í Jemenferðina í maí. Gjörsovel og láta nú í ykkur heyra, elskurnar mínar og vænurnar.

Gjörið svo vel og láta síðuna ganga. Set myndir frá Íran og e.t.v. Armeníu inn á síðuna seinna í vikunni. Heyrumst svo