Mikilsverður fundur VIMA í Kornhlöðunni 22.okt

Eins og ég minntist á þegar ég sendi ykkur póst í gær vakti ég athygli á að fundur yrði hjá VIMA- Vináttu og menningarfélagi Miðausturlanda í Kornhlöðunni laugardaginn 22.okt. kl. 14 - þ.e. eftir viku.

JK segir frá Jemen-verkefni félagsins, þ.e. stofnun Fatimusjóðs- aðdraganda og ástæðum og hvernig því hefur miðað. Talar einnig stuttlega um hugmyndir stjórnarinnar um útgáfu fréttabréfs og þá hugmynd að efna til árshátíðar.

Aðalefni fundarins er að Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur flytur forvitnilegt erindi sem mun fjalla um reynslu hennar af því að búa í fjórum löndum á Arabíuskaga; Katar, Sameinuðu furstadæmin, Jemen og Kuwait, á árunum 1985 - 1995. Hún rifjar upp hvernig það var eyða unglingsárunum í Arabíu, ganga í breskan menntaskóla, vinna á fimm stjörnu lúxushóteli, verða ástfangin, og giftast svo líbönskum manni, eignast með honum börn. Um upplifun á daglegu amstri og samskiptum við ólíka hópa fólks frá ýmsum heimshornum. Hún mun segja frá reynslu sinni af stríðsátökum á svæðinu; Flóastríðinu (1990-1991) og borgarstyrjöldinni í Jemen (1994). Í lok erindisins mun hún svo skýra hvernig hún metur þessa reynslu sína nú 10 árum seinna og hvernig hún hefur mótað skoðanir hennar á stöðu MIðausturlanda nú til dags á alþjóðavettvangi.

Þetta er því einkar athyglisverður fundur og við í VIMA vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta. Við minnum fólk á að greiða árgjöld sín til félagsins. Kaffi og terta selt á hóflegu verði sem fyrr. Ferðaáætlanir munu liggja frammi. Nýir félagar eru velkomnir.