Þriggja barna jemensk móðir komin á styrktarlista okkar

Góðan daginn og hér með nokkur notaleg orð í tilefni dagsins.
Ath. að á morgun set ég inn tilkynningu um almennan VIMA fund sem verður í Kornhlöðunni eftir rúma viku.

Fékk fyrir fáeinum dögum nýjan lisa yfir tíu stúlkur frá YERO í Jemen þar sem ég sagði þeim að Fatímusjóður vildi styrkja ólæsar stúlkur 15-20 ára í fullorðinsfræðslu.

Þær segja mér að það prógramm byrji ekki fyrr en um áramót en sendu mér sem sagt lista yfir stúlkur 11-16 ára sem hafa ekki styrktarmenn í vetur og vonast eftir hjálp. Svo áðan lét ég millifæra af reikningi sjóðsins fyrir þessar stúlkur.

Ein þeirra Fairouz Mohammed Al Hamyari er nokkuð einstök og mig langar að segja aðeins frá henni. Hún er 22ja ára, fráskilin og á 3 börn. Hún hætti í skóla þegar hún giftist en nú eftir skilnaðinn vill hún bæta sína möguleika og taka upp þráðinn, klára grunnskólann og halda áfram í menntaskóla og síðan háskóla. Hún hefur skrifað sig í 9.bekk sem bendir til að hún hafi hætt 14-15 ára. Mér finnst einstaklega sjarmerandi að Fatimusjóður styrki þessa ungu spræku konu.

Ef fleiri vilja leggja þessu lið þá vitið þið að því er tekið með fögnuði. Svo nú eru samtals 37 stúlkur sem eru í skóla fyrir tilstuðlan íslenskra. Það er flott.

Athuga svo að ég verð með smáfund um Sýrlands/Jórdaníuferðina nú á laugardag kl 14 stundvíslega í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Þar förum við yfir áætlun og fáum okkur te og kaffi og íranskt sælgæti. Fundurinn stendur ekki nema í mesta lagi klukkustund og aðkallandi að skráðir og áhugasamir mæti. Greiðsluáætlun lögð fram því þátttakendur verða að byrja að borga inn á ferðina á næstu dögum.
Vegna forfalla geta 2-3 bæst við. Hafið það bak við eyrað. Nokkrir geta ekki komið en hafa látið vita og ég sendi þeim upplýsingar eftir helgina.

Varðandi Íransferðina í mars: Hún er orðin vel skipuð, en má bæta við tveimur en ekki öllu fleirum þó. Íransfarar hafa fengið senda rétta áætlun og hvernig skal greiða ferðina. Verið svo ljúf að fylgja þeirri áætlun vandlega. Það má tiltölulega lítið út af bera í þessum dæmum mínum. Mun halda fund um ferðina í lok nóvember.
Látið í ykkur heyra. Það peppar mann upp að heyra frá ykkur.