Ritnefnd tekin til starfa - tvær stúlkur til viðbótar með styrktarmenn- og gleymum ekki Líbanon

VIMA stjórn og nýskipuð ritnefnd hittist áðan til skrafs og ráðagerða. Ritnefndina skipa
Birna Karlsdóttir
Oddrún Vala Jónsdóttir
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir

Þær stefna að því að fyrsta fréttabréfið komi út fyrstu viku janúarmánaðar og verður sent til allra félagsmanna. Gaman væri ef við gætum gefið út svona fréttabréf ársfjórðungslega. Sjáum til með það.

Þar sem samþykkt var með lófaklappi á fundinum fyrir viku að efna til árshátíðar VIMU höfum við sent fjórum félögum beiðni um að taka sæti í skemmtinefnd til að undirbúa hana og vænti ég að þeir taki beiðninni vel.

Svo hafa enn bæst við styrktarmenn

Safa Jamil Al Salwi, 12 ára og í 5. bekk - Guðrún Erla Skúladóttir
Ahlam Yahia Hatem, 16 ára, í 1.bekk í framhaldsskóla - Birna Karlsdóttir

Nokkurn veginn liggur það í augum uppi að ég mun biðja þær YERO konur um fleiri nöfn þegar ég hitti þær í Jemen fljótlega og svo má ekki gleyma að við munum láta Fatimusjóð styrkja amk 5 í fullorðinsfræðsluna sem hefst eftir áramótin.

Þá vil ég segja frá því að ég mun á mánudaginn láta bankann millifæra 500 dollara úr sjóðnum í verkefnið í flóttamannabúðunum í Sjabra og Sjatila í Líbanon og við höfum lagt smáupphæðir í árlega síðan góðir VIMA félagar stungu upp á því að leggja þessu verkefni lið þegar hópur var á ferð í Líbanon fyrir tveimur árum.

Styrktarmenn hafa flestir gert upp fyrir sínar stúlkur eða látið mig vita hvernig þeir ætla að greiða.
Á hinn bóginn þarf Fatímusjóður líka að blómstra svo ég minni á að öll framlög í hann eru þakksamlega þegin. Þið sjáið reikningsnúmerið hérna til hliðar á síðunni.