Unglingsstúlkur í fullorðinsfræðslu

Sæl aftur
Þær stöllur hjá YERO í Jemen hafa sent mér nýjan lista að minni beiðni með nöfnum 10 stúlkna sem eru á aldrinum 16-20 ára. Þær eru ólæsar og hafa aldrei gengið í skóla en eru nú á biðlista að komast í fullorðinsfræðslu í bækistöðvum YERO, þar er þeim kennt að lesa og skrifa og eins eru þær þjálfaðar í verklegum greinum, eins og saumaskap og léttum iðngreinum þegar þær hafa náð lestrinum. Með þessu hafa þær síðan kannski ekki von um að geta komist í menntaskóla en altjent bjargað sér betur.

þær spurðu hjá YERO af hverju við vildum bara stúlkur, það væri fullt af strákum sem þyrftu að komast í skóla. Ég var svo hrifin af því sem Ingunn Mai skrifaði mér á dögunum að með því að mennta dreng, menntarðu mann, með því að mennta stúlku menntarðu þjóð - svo ég svaraði þeim á þá lund og þær sögðust hneigjast til að vera sammmála.

Nú veit ég ekki hvað fullorðinsfræðslan kostar per stúlku, þær eiga eftir að senda mér kostnaðaráætlun. Fatímusjóður mun borga fyrir amk fimm þessara stúlkna með léttum leik og ef þið viljið sérstaklega taka þátt í þessu þá er reikningsnúmerið hérna til hliðar. Væri gaman að heyra frá ykkur hvernig ykkur líst á þetta.

Annars er það helst títt að arabískukennslan byrjaði í gærkvöldi og fyrsti tíminn í menningarheimsnámskeiði er í kvöld.

Einnig þakka ég Ómanförum fyrir snögg viðbrögð og bendi enn og aftur á að Íransferðin í mars er til reiðu fyrir þá sem því við koma. Verðið er gott og veðrið er gott og því um að gera að skrá sig.

Almennur félagsfundur verður í VIMA 22.okt. Kl. 14 á laugardegi í Kornhlöðunni. Þar mun Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur í Miðausturlandafræðum flytja erindi og nánar um það síðar.

Nú væri ráð að klára að undirbúa tímann í kvöld og kaupa svo hljóðkút undir elskulega gamla bílinn minn.