VIL MINNA A JEMENFERÐINA


Svei mér ef veturinn er ekki bara kominn í bæinn.

Mig langar til að benda ykkur á að það er ekki að ástæðulausu sem ég hvet fólk í VIMA og nýja félaga til að skrá sig í ferðirnar. Það stafar einfaldlega af því að það er mun meira umstand og undirbúningur við þessar ferðir en svona massatúrisma þar sem hvorki þarf áritanir né að senda út upplýsingar fyrirfram.
Einnig stafar þetta af því að það eru ekki starfsmenn hér og greiðslur þarf að senda út með lengri fyrirvara og á ýmsum tímum og til að hafa skikk á þessu öllu er aðkallandi að við höfum góðan undirbúning.

Og nú minni ég á Jemenferðina í byrjun maí. Það verður að hefjast skráning í hana sem fyrst og nokkrir hafa tilkynnt sig en við þurfum fleiri svo að verð haldist óbreytt. Ég kalla það gott ef ekki þarf að hækka ferðirnar í vetur því flugfélög eru þegar farin að breyta verði en ef ákveðinn fjöldi næst er samningsstaðan betri svo maður tali nú hátíðlega.

Íranferðin í mars er að taka á sig mynd en þar má bæta við. Hafið það bak við eyrað.

Þá verða smáfundir á næstunni með marsfólki til Írans og Sýrlands/Jórdaníuferðalöngum í apríl. Nánar um það fljótlega.

Ég hef fengið nokkuð góð viðbrögð við stuðningi við fullorðinsfræðslustúlkurnar og þakka fyrir það. Vonast til að heyra frá fleirum þó.

Vonast svo líka til að setja myndir frá Íran inn á síðuna fljótlega.