Elskurnar mínar- sendið mér myndir - Eid al fitr hátíðin að ganga í garð

Það var um miðja síðustus viku sem ég sendi ykkur hógværa beiðni stúlkanna okkar í Jemen að láta þær fá myndir af styrktarfólki sínu íslensku sem ég mundi svo færa þeim þegar ég kem við í Jemen á næstunni.
Enn hef ég ekki fengið nema fáeinar myndir - takk kærlega fyrir þær - en ég verð að fá þessar myndir fyrir föstudag svo ég bið ykkur að drífa í málinu. Það er leitt ef sumar fá myndir og aðrar ekki því ekki er þetta nú stór og mikil ósk. Vinsamlegast póstið myndir í dag, miðvikudag.
Þá langar mig að taka fram að nú er ramadan að ljúka og Eid al fitr, önnur helsta trúarhátíð múslima að ganga í garð. Þá eru börnum gefnar smágjafir og YERO konur höfðu samband við mig í morgun og sögðu mér að vegna aðstoðar okkar mundu samtökin geta gefið öllum stúlkunum okkar 37 gjafir. Það er merkilegt þegar haft er í huga að upphæðin er ekki stór og þegar hefur verið upptalið hvað stúlkurnar fá fyrir þessa peninga.

Einnig vil ég þakka ötulum Ómanförum fyrir dugnað við að borga nóvembergreiðslu, Íranfarar standa sig með sóma og ýmsir Sýrlands/Jórdaníufarar líka. Þó heyrist ekkert frá stöku væntanlegum ferðalöngum og það þykir mér súrt í brotið. Allir eiga að vita að þessir peningar fara jafnótt út til að greiða inn á ferðirnar og ekki má mikið út af bera svo ég lendi ekki í klúðri. Hvet ykkur því eindregið til að gera skil hið allra fyrsta en ítreka jafnframt ánægju mína með skilvísi margra.

Sofið svo sætt og blítt en drífið í hvorutveggja málum.