Jemenstúlkurnar okkar




Þá er hér mynd af okkar glöðu og fallegu Jemenstúlkum plús JK sem var tekin við miðstöð YERO í Sanaa á dögunum. Flestallar stúlkurnar mættu þennan morgun eins og ég hef fyrr minnst á. Fáeinar voru forfallaðar og ég hitti því ekki allar en áhuginn var svo mikill að ein hafði til dæmis sent systur sína til að ná í mynd.

Þetta hús leigði Nouria Nagi, forstöðukona YERO fyrir nokkrum mánuðum og fékk sjálfboðaliða til að gera það í stand með sér og er árangurinn til fyrirmyndar.

Stúlkurnar eru í hinum ýmsu skólum í Sanaa en hver aldurshópur sem nýtur styrks kemur tvisvar í viku í miðstöðina til að fá aðstoð við heimanám og eru hinar fínustu kennslustofur þar. Einnig er stofa þar sem þær fá aðstoð í teiknun og meðferð lita því fæstar þekkja litina og ungur jemenskur listmálari hefur boðist til að koma dag hvern til að leiðbeina einum bekk.

Úti fyrir er snyrtilegt port þar sem iðulega er komið fyrir borðum og stólum því krakkarnir fá máltíð í hvert skipti sem þau koma. Nokkrar mæður stúlknanna - sumar atvinnulausar eða veikar - hafa boðið sig fram til að þrífa og þarna er líka skrifstofa svo og geymsla fyrir fata- og matargjafir sem ýmsar erlendar konur, búsettar í Sanaa, gefa og þær YERO konur koma til skila og þvo fötin og strauja og gefa stelpunum svo og yngri systkinum þeirra.

Úti í portinu er í bígerð að efna til góðgerðarkvöldverða einkum fyrir útlendinga í Sanaa sem vilja styrkja YERO og borga þá fyrir matinn.

Er að láta gera nokkrar myndir í viðbót sem ég kem með á "foreldrafundinn" kl, 3,30 á laugardaginn. Vona að sem flestir styrktarmenn sjái sér fært að koma.

Vil einnig minna á - ef misskilningur hefur orðið- að fundurinn kl 2 er með Íranshópnum í mars. Þætti vænt um að frétta frá þeim - bæði Íransförum og styrktarfólki sem telur að það geti EKKI komið.

Eins og ég hef lagt áherslu á er nauðsynlegt að Íranshópur hafi með sér 2 stk passamyndir(konur beri slæðu) og vegabréf til að þeir geti tjekkað á því hvort númerin sem ég hef sent út eru örugglega rétt.
Það skal líka áréttað að gestir eru velkomnir á styrktarforeldrafundinn.

Einn VIMA félagi hafði samband og ætlar að gefa tveimur barnabörnum sínum í jólagjöf stuðning við tvær stúlknanna í fullorðinsfræðslu sem byrjar eftir áramót.

Það finnst mér falleg hugsun. Hún sagði að þau mundu þá átta sig á að það er ekki alls staðar sjálfgefið að börn FÁI að njóta skólavistar.

Við Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri VIMA,
erum að uppfæra félagaskrána ma. vegna fréttabréfsins sem kemur í janúar.
Hef sent nokkrum fyrirspurn sem ég veit að hafa flutt/eða heimilisfang er ekki rétt í okkar plöggum. Verið svo góð að svara.