ÍRAN námskeið á prjónunum - enn vantar myndir

Í gærkvöldi var síðasti tíminn hjá mér í Menningarheimi araba hjá Mími símenntun og á miðvikudagskvöldið luku nemendur í arabísku 1 sínu að sinni. Það er hugsanlegt að áhugasamir arabískunemendur sem vilja halda áfram geti komist á námskeið í janúarbyrjun og Mímir tilkynnir það ugglaust þegar þar að kemur. Menningarheimsnámskeið verður ekki fyrr en næsta haust insjalla.

Mímir símenntun og ég höfum svo samið um að ég haldi tveggja kvölda námskeið annað hvort síðla febrúar eða mars um Íran enda virðast margir sérdeilis forvitnir um það. Ekki er ætlunin að þeysa yfir söguna mörg þúsund ár aftur í tímann en halda sér við síðustu hundrað árin eða svo með smástökkum til fortíðarinnar. Ráðlegg fólki að láta Mími vita í tíma ef það hefur áhuga á þessu námskeiði því þátttakendafjöldi verður væntanlega takmarkaður.

Þakka þeim kærlega sem hafa komið til mín myndum til jemensku stúlknanna okkar. Leitt til þess að vita að ekki munu allar stúlkurnar fá myndir eins og beðið var um því enn vantar amk tíu myndir. Gæti þó ræst úr því að hluta en greinilegt að einhverjar verða út undan.

Loks hvet ég svo fólk til að vera duglegt við að greiða nóvembergreiðslu og almennt standa í skilum með þessar afborganir. Einnig að skrá sig í apríl og maí ferðinar. Þar má enn bæta við og menn skyldu ekki fara á mis við þá upplifun sem Sýrlandsferð er um páska og Jemen í maí.

Skrifa væntanlega smápistil inn á síðuna áður en ég bregð mér af bæ til Ómans, Jemen, Sýrlands og Jórdaníu á sunnudagsmorgun.