Fundur með marshópi til Írans - og "foreldrar"jemensku stúlknanna fengu plögg um þær

Við vorum fundaglöð í dag, laugardag og efndum til tveggja góðra funda.

Sá fyrri var með hópnum sem heldur til Írans í mars. Meginviðfangsefnið var að fylla út umsóknir um vegabréfsáritunina sem er töluvert maus og var ágætt að gera það í sameiningu.
Allir komu með tilskildar myndir og svo var rennt lauslega yfir áætlunina, dreift pésum um hótel og rætt um fatnaðarmál og ég kom með þrjár mussur sem ég keypti í Íran í september sl. til að sýna kvenfólkinu.

Auk þess mauluðu menn sýrlenskar kökur og ómanskar döðlur og drukku kaffi eða te. Nokkrir greiddu desembergreiðslu og fimm borguðu einnig fyrir áritun. Þá upphæð má einnig leggja beint inn í íslenskum krónum á ferðareikninginn 1151 15 550908, kt. 1402403979.
Það var prýðisgóð stemning og tvö lítil barnabörn félaga voru til ánægju og sóma.

Mér heyrist allir vera fullir tilhlökkunar en segja má að það hafi verið fyrir ábendingu frá Þuríði Árnadóttur - sem er meðal ferðafélaga- að ég fór að garfa í hvort unnt væri að VIMA menn kæmust í ferð til Írans.
Ekki má gleyma að allnokkrir greiddu félagsgjöld í VIMA á fundinum.

Önnur Íransferð er svo í haust og virðist fullskipuð.

Stoltir "foreldrar" jemensku stúlknanna

Þegar Íransfarar hurfu á braut kom meirihluti þeirra sem styrkir ákveðna stúlku/stúlkur til náms í Jemen. Ég hafði áður sent þeim sem tilkynntu forföll þau plögg sem YERO konur afhentu mér í Sanaa, þe. mynd og upplýsingar um hverja stúlku.

Sagt frá heimsókninni til YERO á dögunum, eins og minnst hefur verið á hér á síðunni og allir styrktarmenn virtust glaðir að frétta af sínum stúlkum. Því miður vantaði nokkra á fundinn en ég pósta til þeirra á næstu dögum þessi plögg.

Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri VIMA og styrktarmaður tveggja stúlkna bar á borð hinar herlegustu hnallþórur og var setið að te og kaffidrykkju og skrafi góða stund.

Sú hugmynd kom upp að senda stúlkunum smágjafir en Ólöf Sylvia stakk upp á við skytum saman í upphæð og kæmum henni til Nouriu Nagi, forsvarskonu YERO sem mundi vita hvað stúlkunum kæmi vel.

Þetta fékk góðan hljómgrunn og var ákveðið að hver styrktarmaður sem svo kýs borgaði 1000 kr. - þúsund krónur - inn á Fatimusjóðinn 1151 15 551130 kt.1402403979 og ég mun svo koma því áleiðis þegar ég sé hverjir vilja vera með í þessu.
Rétt að taka fram að á Íransfundinum hafði ég látið nokkra félaga sem taka þátt í þessu góða verkefni, fá sínar möppur.

Sem sagt fínn dagur með öðlingsfélögum. Takk kærlega.