Hugmynd um getraun - blíðleg bréf hafa verið send

Ja, rigningin og myrkrið úti fyrir. Maður lifandi!
Vænti þess að ykkur hafi liðið undur þekkilega um jóladagana, allir hafi etið nægju sína, fengið góðar gjafir og fallegar hugsanir.

Sendi í gær imeil til allra í ferðunum okkar 2006 og bað auk þess hjálplega félaga að hafa samband við þá sem eru ekki með netfang. Þetta var til að minna á janúargreiðslu og einnig biðja Íransfara í septemberferð til að staðfesta einbeittan vilja sinn til að taka þátt í þeirri ferð sem mikil ásókn er í og gott er nú það.
Vona að allir bregði vel og snöfurlega við.

Var að senda lokagreiðsluna til ferðaskrifstofunnar í Óman svo nú erum við skuldlaus þar á bæ.

Eins og samþykkt var á síðasta almenna fundi VIMA kemur fyrsta fréttabréfið okkar út fyrstu vikuna í janúar og verður sent til allra skráðra félaga.
Þó ekki sé rétt að upplýsa nákvæmlega um efni þess skal hér með greint frá því að ákveðið hefur verið að hafa í því smágetraun um þau lönd sem við höfum flandrað um. Verðlaun verða ferð fyrir einn ( ráðum ekki við meira í bili) til eins/tveggja þessara landa. Er í bígerð að hafa svona getraun í þeim tveimur blöðum sem við gefum út á ári.
Ég vonast eindregið eftir góðri þátttöku og hvet alla til að taka þátt í gamni þessu. Í leiðinni er rétt að það komi skýrt fram að öllum er heimil þátttaka og ekki bundið við félaga í VIMA.
Þetta finnst mér brilljant hugmynd eins og orðasmiðurinn góði, Vala Matt mundi komast að orði.

Ekki sakar að minna á að bráðum dregur að því að menn fari að hugsa um almennan fund í Kornhlöðunni 14.janúar kl. 14. Og gleymið ekki að tilkynna ykkur á árshátíð í febrúar. Allt þarf sinn tíma.