Jólin koma og ég strauja og geri lista

Það mætti halda að annríkið fyrir jólahátíðina hafi verið mikið því ég hef ekki skrifað stakt orð í eina fimm daga og er það ekki til eftirbreytni.

Svör við árshátíðarskráningu hafa nokkur borist og þegar menn hafa notið jólasteikanna og sörukakanna mun straumurinn vonandi aukast enn. Við verðum að hafa ákveðinn fjölda til að af verði og menn mættu gjarnan taka sér tíma frá jólaundirbúningi og senda línu þar um.

Vil þakka septemberförum til Írans hvað þeir hafa svarað greiðlega, sú ferð er því sem sagt setin og ekki hægt að kvarta undan aðsókn í ferðir okkar hugþekku félaga á komandi ári.

Ég vil eindregið benda marsferðalöngum til Írans að ljúka við að greiða fyrir vegabréfsáritun og það sem fyrst.
Mér til hinnar mestu armæðu hafa ekki allir Sýrlands/Jórdaníufarar borgað desembergreiðsluna og það er satt að segja ekki nógu gott. Allt mitt fólk á að vita að við verðum að leggja mikið upp úr því að menn standi í skilum. Ef einhver vandræði eru ættu menn að minnsta kosti að láta mig vita.
Ítrekað skal hér vegna viðbótarfyrirspurna að ég bæti alls ekki fleirum í þá ferð.

Ómanfarar hittast í janúar og horfa á tvö myndbönd sem mér voru send og munu í leiðinni fá sín ferðagögn. Nokkrir þar þurfa að vippa sér í að ganga frá greiðslu vegna eins manns herbergja.
Strax um áramót verða svo Jemen/Jórdaníufarar að hefja greiðslu í maíferðina og þar get ég bætt við fjórum til sex.

All nokkrir Ómanfarar hyggja líka á september í Íran og skulu greiða staðfestingargjaldið þann 1.-5 jan. Það er 20 þúsund og greiðist á ferðareikninginn 1151 15 550 908 og kt. 1402403979. Ef einhverjir þurfa frest hafi þeir samband. Ef fólk forfallast í þá ferð mun staðfestingargreiðslan verða endurgreidd til 1.maí.

Minni líka alla ferðafélaga á að standa í skilum með félagsgjaldið. Þið sjáið það hér á síðunni undir hentug reikningsnúmer.

En hvað er annars leiðinlegt svona rétt fyrir jólin að skrifa bara um peninga.
Mér til óblandinnar ánægju er ég nú að undirbúa árið 2007 og get glatt áhugasama að ég nú ekki tali um mína traustu áskrifendur að ein ný ferð - auk þeirra sem fyrir eru- verður á boðstólum. Það leyndarmál verður upplýst í fréttabréfi VIMA sem ritnefnd vinnur nú að og ætlunin er að koma því út um helgina 7-9 jan. Fylgist með því.

Að öðru leyti, gardínur hafa verið þvegnar og seríur settar upp og ég er meira að segja búin að bóna eldhúsgólfið svo það skín eins og spegill. Held ég láti þetta duga og snúi mér nú að jólagjöfum handa niðjatalinu.

Minni létt í leiðinni á bók Elísabetar Jökuldsdóttur, Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í þessu húsi. Elísabet er eins og menn vita kraftmikil sölukona en einnig má hafa samband við hana á Ellastina@hotmail.com. Góðar undirtekir við bók Kristjóns- elsta ömmudrengsins Frægasti maður í heimi - er mér einnig hið mesta ánægjuefni. Hafið þær í huga fyrir ykkar jólaböggla.

Gjörið svo vel og látið síðuna ganga til skemmtilegra kunningja. Skyldum við ná 20 þúsund gestum fyrir jól? Það er undir ykkur komið.
Að svo mæltu gott í bili og nú fer ég og gæði mér á indælis smákökum, heimabökuðum af Jóa Fel. Get mælt með þeim.
Einnig hef ég þau stóráform á prjónunum að strauja nokkra heimasaumaða jóladúka - gerðir af móður minni sálugu Elísabetu Ísleifsdóttur, þeirri gagnmerku hannyrðakonu.
Svo þið sjáið að annríkið er mikið hér á Drafnarstíg. Myndarskapur minn ríður ekki við einteyming.

Látið nú frá ykkur heyra, elskurnar allar