Nýtt og ferðaglatt ár handan morgundagsins

Blessuð öll

Mér finnst brýnt að minna greiðendur inn á ferðir á eftirfarandi: látið kennitölu ykkar fylgja þegar þið borgið inn á ferðir.

Í gærkvöldi uppgötvaði ég að einhver Sýrlandsfari hafði greitt vel og samviskusamlega en vantaði kennitölu og þar með hef ég ekki græna glóru um hver þessi skilvísi greiðandi er. Mun gera gangskör að því að upplýsa málið en þetta er óþarfa vesen. Aðeins síðar: þetta er komið á hreint hér með og viðkomandi hafa fengið greiðslur sínar færðar réttilega til bókar.
Annars er ekkert vit að kvarta því ferðalangar láta greiðslur nú streyma inn á reikninginn 1151 15 550908 og þriðjungur Ómanfara hefur gert upp ferðina og mætti segja mér að einhverjir bættust við í dag. Það er þakksamlega þegið því ég hef þegar greitt ferðina að fullu til allra samstarfsmanna okkar.

Nokkrir Íransfarar í september hafa ekki bara tilkynnt sig heldur hafa innt af hendi staðfestingjargjaldið svo þetta er allt á fjúkandi siglingu.

Það er óhætt að fullyrða að ferðir ársins 2006 eru velskipaðar og alskipaðar
Febr. Óman - 26
mars Íran 20
apríl Sýrland/Jórdanía 32
maí Jemen/Jórdanía 16 (get bætt við fjórum en ekki öllu fleirum)
september Íran 27 ( hafa staðfest)

Einnig er enn í deiglunni 6 daga Stuðmannaferð til Sýrlands í júní. Þar er allt klappað og klárt af hálfu Sýrlendinga og eru öll leyfi fengin til tónleikahalds og formsatriði frágengin, hótel tilbúin að taka á móti íslenskum en flugferðin héðan er ekki komin á tært. Mun ekki liggja á þeim upplýsingum þegar þær skila sér í hús.

Óhætt að segja að ferðir ársins sem nú kveður, 2005, hefur verið hið ágætasta og full ástæða til að hlakka til þess nýja.

Ekki síst er ég himinlifandi yfir þátttöku VIMA félaga og annarra góðra manna í Fatimusjóðnum. Nouria Nagi sendir mér á næstunni fimmtán nöfn yfir stúlkur sem hefja senn lestrarnámið, þ.e. ólæsasr stúlkur 15-20 ára.

Bið fleiri að gefa sig fram þeim til styrktar. Vert að geta þess að ég hef þegar sent til YERO 300 dollara sem er gjöf frá styrktarfólkinu stúlknanna. Því miður voru ekki allir styrktarmenn með en Nouria kveðst vera himinlifandi og mun ráðstafa þessum peningum með gjöfum til stúlknanna.

Þá hefur Fatimusjóður sömuleiðis sent 1500 dollara til að greiða sex mánaða laun jemenskrar kennslukonu sem mun sjá um fullorðinsfræðsluna.

Síðast en ekki síst vonast ég til að við getum sent tvisvar á ári í kvennaverkefnið í flóttamannabúðunum Sjabra og Sjatilla. Veit að ýmsir hafa vilja til að greiða smávegis í það verkefni.

Ítreka að menn tilkynni sig á árshátíðina 25.febrúar. Svo verðum við í sambandi fljótlega eftir áramótin varðandi fundi, fréttabréf og fleira gúmmulaði.

Sendi ykkur öllum fagnandi nýársóskir og þakka skemmtilegar samverustundir á því ári sem er að hverfa í minningarpokann