Skötudagurinn runninn upp - og svo koma jólin

Þá hef ég trítlað um Grandaveg, Meistaravelli og Víðimelsbotnlangann og dreift Morgunblaðinu í Þorláksmessublíðunni. Hitti ekki nokkurn mann enda snemma á ferli.
Mikið væri gaman ef jólaveðrið héldist eins og það var í morgun.

Hef fengið lista yfir hótel Ómanhópsins og þau fylgja með í umslaginu þegar Ómanhópurinn hittist hjá Söru Sigurðardóttur sem hefur boðið fram húsnæði sitt fyrir janúarfundinn. Nánar um það síðar.

Ég sendi pottþétt út glaðlegan póst rétt fyrir áramótin til að minna á janúargreiðsluna og veit líka að marga þarf ekki að minna á. Nú hafa til dæmis nokkrir Ómanfarar þegar innt hana af hendi. Á hinn bóginn þurfa fjórir að borga eins manns herbergis gjaldið og áttu raunar að gera það um síðustu mánaðamót. Ekki draga það.

Íranliðið í mars og Sýrlands/Jórdaníuhópurinn í apríl drífa sig vonandi að borga sitt um mánaðamótin og mér þykir afleitt að þurfa að ítreka einn ganginn enn að ekki hafa allir Sýrlandsfarar enn greitt desembergreiðslu án þess að láta frá sér heyra. Þar eru þó ekki margar sálir á ferð.

Það er mjög bagalegt að Íranfarar hafa ekki allir lokið greiðslu fyrir vegabréfsáritunina. Þrír eiga það ógert.

Auðvitað veit ég að jólamánuðurinn er mörgum dýr og allt það en þessar greiðslur hafa legið ljósar fyrir frá því menn skráðu sig í ferðirnar og verða því að láta mig vita ef eitthvað klikkar.

Þá er Jemen/Jórdaníuhópurinn í maí að komast á skrið og verður haft samband við hann innan tíðar.
Eins kvölds námskeið um Jemen/Jórdaníu verður hjá Mími símenntun 19.janúar n.k.

Sé ekki betur en Íransferðin í september sé fullskipuð eins og ég hef raunar minnst á.
Sá hópur skal greiða staðfestingjargjald sitt 20 þúsund kr. 1-5 janúar n.k. á reikninginn 1151 15 550908 kt. 1402403979. Þeir sem forfallast af einhverjum ástæðum fá staðfestingjargjaldið endurgreitt til 1.maí.
Gjörið svo vel að muna eftir þessu.
Tveggja kvölda námskeið um Íran verður hjá Mími í mars - eftir fyrri ferðina.

Og svo er sniðugt að segja frá því að ýmsir hafa vaðið fyrir neðan sig og eru byrjaðir að skrá sig í ferðirnar 2007. Það á nú vel við svona skipulagða listaveru eins og mig.

Að þessu jólalega þusi loknu þetta:

Í gærkvöldi fékk ég skemmtilega heimsókn Bjarkar Þorgrímsdóttur, stúlkunnar sem vann í Armenínu í níu mánuði og er nýkomin heim. Það var gaman að hitta hana aftur. Stúlka sem plumar sig og hefur staðið sig eins og hetja í útiverunni þó svo hún veiktist úti og stríddi við lasleika í tvo mánuði, gafst hún ekki upp og hélt sínu striki. Gott hjá henni.

Til Sýrlands/Líbanonhóps haustið 2004: Jólakveðja til ykkar frá Guðbergi Jónssyni í Danmörku sem þætti gaman að heyra í ykkur.

Hef fengið fullt af skemmtilegum myndum úr ferðum ársins frá VIMA félögum með jólakortunum. Bestu þakkir fyrir þær allar svo og aðrar kveðjur.

Af einkahögum:
Salan hjá Elísabetu gengur eins og í sögu. Hún stendur aðallega vaktina í Melabúðinni og í Nóatúni við Hringbraut.

Bróðir minn, fornbóksalinn Bragi Kristjónsson, fæst við fleira en sölu á bókum. Hann hefur boðað komu sína hingað á Drafnarstíg með heimatilbúið rauðkál sem hann er mikill snillingur að gera.

Undir hádegið býst ég til að fara í klippingu og annað hársnurfs og mun svo snúa mér að forréttagerðinni sem ég legg á borð með mér hjá Illuga og fjölskyldu á aðfangadagskvöld.
Skötudagurinn mikli er runninn upp og ég skunda í Kópavoginn í kvöld og ríf hana í mig af fögnuði.

Síðast en ekki síst er þetta afar sentimentall dagur og ég lyfti glasi fyrir því í kvöld að Þorláksmessa er trúlofunardagurinn minn. Þá var maður sextán ára. Og lét ekki einu sinni foreldrana vita hvað til stæði. Þetta þætti mér ekki góð latína nú.

Og svo koma jólin. Gleðilega hátíð.