Burt úr slagviðrinu - Sýrlands-Íran og Jórdaníufundir, takið frá 19.febr.

Íslenskt slagveður í dag - snjór á morgun - aldrei að vita. Óneitanlega verður viðkunnarlegt að komast í blíðviðrið í Óman og eru ferðalangar langt komnir að pakka og setja sálina í stellingar. Við hittumst í Leifsstöð kl. 6 í fyrramálið og þá tjekkum við inn alla leiðina til Múskat. Muna það.
Hafa slaufur á töskum og merki í barmi og við munum vitaskuld bera af öðrum.

Bið Sýrlands- Jemen og Íranfara vinsamlegast að taka frá klst sunnudaginn 19.febrúar fyrir smáfund. Það er nauðsynlegt fyrir Sýrlandsfara að hittast vegna þess hve margir hafa bæst í þann hóp.
Vænti þess að farmiðar Íransfara verði þá tilbúnir og þeir fái á fundinum sín ferðagögn og miða. Jemenfólk ætti sömuleiðis að reikna með fundi þann dag. Læt ykkur vita um það nánar hvenær hvaða hópur á að mæta.

Flestir Íransfarar hafa nálgast vegabréf sín hjá mér. Edda Ragnarsdóttir, varaform. VIMA verður vörslumaður Drafnarstígs á meðan ég er í burtu og menn skyldu hafa samband við hana eða við ritarann Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur ef eitthvað liggur á hjartanu. Annars verð ég í sambandi og þið skrifið mér bara ef þið viljið spyrja einhvers.

Gjöra svo vel og athuga hvort forfallatrygging er ekki pottþétt inni í ykkar heimilistryggingu fyrir þessa fundi.

Bið svo Íranfara að borga síðustu greiðslu 1.-5. febrúar og sama gildir náttúrlega um Sýrlandsfólkið og Jemenhópinn.

Þá kem ég til skila að hafa samband við skemmtinefndina Álfhildi Hallgrímsdóttur og Huldu Waddel og hvet ykkur til að skrá ykkur á gleðskap okkar 25.febrúar. Þar munu Íslandsmeistarar í magadansi sýna listir sínar og eitthvað fleira verður til skemmtunar óg gómsætur matur á boðstólum.

Ítreka að Ómanfarar skilji eftir bloggsíðuna johannatravel.blogspot.com hjá ættingjum og öðrum aðdáendum og vænti þess að menn verði ötulir að skoða hana.

Vegna flensuvesenis míns þarf ég að fara í arabískukennslu í eftirmiðdaginn en allt er þetta nú að koma þó röddina vanti að vísu enn þessa alkunnu silkimýkt sem menn þekkja.