ERRIÐ ER KOMIÐ á sinn stað - ýmislegt um ferðirnar okkar

Það hefur hrjáð margan góðan stafsetningarmanninn að í netfangið mitt hefur vantað R í Drafnarstíg. Nú hefur þessu verið kippt í lag. Hvorki meira né minna og munu menn nú róast og gleðjast.

Ég tek ekki fleiri í Íranferðina í september en þá sem þegar hafa greitt staðfestingargjaldið - reglulegar greiðslur inn á þá ferð hefjast svo 1.maí n.k. en ég læt ykkur vita nánar um það.
En vinsamlegast hafa það bak við eyrað að taka fram á hvaða Íranbiðlista þið viljið vera.Í boði eru þrír kostir og allir góðir
September 2006- ekki mjög miklar líkur að komast með en aldrei að vita- um að gera að hafa spennu í lífinu.
Mars 2007 og september 2007.

Jemen/Jórdanía 2007 er um páska, hafið það í huga. Mér sýnist aðsókn líka vera mjög góð í hana og svo virðist sem nýi áfangastaðurinn Azerbadjan, Georgía og Armenía ætli að slá í gegn.

Það hefur sýnt sig að við þurfum drjúgan fyrirvara í ferðirnar okkar, hvort sem er Sýrland, Óman, Íran eða Jemen. Það er áberandi að menn skipuleggja sig með meiri fyrirhyggju en áður og það er hið ágætasta og gjöra svo vel og halda því áfram.

Las um það í fyrradag í írönskum netblöðum að Íranir hafa í hyggju að veita vegabréfsáritanir við komuna til landsins. Til allra nema Ísraela.
Það gæti þýtt að við þyrftum þá ekki að senda passana út til stimplunar fyrir septemberferðina en þetta skýrist.

Hvet menn til að hafa ekki áhyggjur þó skrif séu um Íran í blöðum og frásagnir í fjölmiðlum þessa dagana. Ég fylgist ágætlega með og mundi láta vita ef minnsta ástæða væri til að hafa varann á.

Fékk lista frá Álfhildi skemmtinefndarstýru í gær um þátttöku sem þegar er komin á árshátíðina. Það leit harla vel út og fleiri mættu þó endilega bætast við.

Ítreka að fundur með Jemen/Jórdaníuförum - af hverju vantar enn í þá ferð? það er alveg ómögulegt - verður síðari hluta febrúar og um svipað leyti með Sýrlandsfólki vegna þess hve margir hafa bæst við í þá ferð.

Hef ekki fengið lista yfir stúlkur frá Nouriu þar sem hátíðin Eid al Adha stendur enn og allt er lokað. Vonast til að heyra frá henni fljótlega. Átta hafa skráð sig sem stuðningsfólk og mig langar að fá fleiri. Ef þið eruð í einhverjum klúbbum eða félögum sem hafa slíkt á stefnuskrá sinni væri gaman að þið kynntuð málið. Þetta eru ekki miklir peningar, 200 dollarar eða jafnvirði þess, en gera óskaplega gott.

Að svo búnu: ég sá í morgun að ég hafði unnið fimmtán þúsund krónur í happdrætti Háskólans. 'I fyrsta skipti sem sú reynsla hefur yfir mig dunið.