Fjölmenni út úr dyrum - mikil þátttaka í ferðum- áríðandi tilkynning frá skemmtinefnd
Sæl öll
Makalaust ánægjulegt hvað fundasókn VIMA félaga er góð. Á fundinum í Kornhlöðunni í dag, laugardag, mættu milli sjötíu og áttatíu manns og sáust heilmörg ný og einkar velkomin andlit. Fagnaðarfundir með gömlum ferðafélögum og allt fór fram í sóma og blóma.
Að vísu forfallaðist Jón Ormur á síðustu stundu en vonandi eigum við hann að síðar.
Mörður Árnason var skipaður fundarstjóri og hvatti hann menn til að kynna sér hinar ýmsu ferðaáætlanir sem lágu frammi og skrifa sig á lista.
Ragnheiður Gyða Jónsdóttir talaði um fimm þúsund ár í sögu Írans og JK tók síðan við og tiplaði á síðustu hundrað árunum og var gerður góður rómur eins og það heitir að máli beggja og menn hlustuðu með blakandi eyru.
Kaffi og kökum gerðu menn góð skil, röbbuðu saman og var þetta ánægjuleg stund í hvívetna.
Eftir að ég kom heim renndi ég svo yfir lista sem menn höfðu skrifað sig á og kom í ljós að mikill áhugi er á ferðum sem fyrirhugaðar eru og ekki þegar uppseldar. Sýnist það liggja fyrir að VIMA menn geri víðreist á árinu 2006 og einnig er mikill vilji til að ferðast saman árið næsta.
Sjá nánar um það í fréttabréfi VIMA og alltaf má hafa samband við mig ef áhugi er fyrir hendi.
Ferðir þessa árs eru:
Óman 30.jan-14.febr, uppseld
Íran 2.-16.mars, uppseld
Sýrland/Jórdanía 6.-21.apríl, uppseld
Jemen/Jórdanía 7.-24. maí, laus sæti (aðeins óljósar dagsetningar en þið sendið fyrirspurnir)
Íran í september - uppseld en skrifa á biðlista
Á árinu 2007 er ætlunin að svipuð áætlun verði í boði en Jemen/Jórdaníuferðin verður þá um páskana, Egyptaland gæti bæst við ef þátttaka næst og í júní 2007 er meiningin að bæta við nýjum áfangastöðum og fara í 3ja vikna ferð til Armeníu, Azerbadjan og Georgíu.
Sýrland/Jórdanía verður þá í maí en Íran í mars og september og Óman vonandi í febrúar.
Svo er hér áríðandi tilkynning frá skemmtinefnd
Árshátíðin verður 24. febrúar og haldin á Kornhlöðuloftinu. Meira um það síðar en skemmtinefnd hefur fest húsið þar sem fyrra húsnæði hvarf út í vindinn. Margir skráðu sig á fundinum en við viljum endilega fá fleiri og vonumst til að þeir geri okkur viðvart hið allra fyrsta.
<< Home