Fréttabréfið á hraðferð til ykkar
Góðan daginn í bæina ykkar
Fyrsta fréttabréf VIMA kom út um helgina og hefur þegar verið borið út til flestra í Reykjavík og önnur voru lögð í póstinn í gær, þ.e. til félaga í Garðabæ, Kópavogi, Mosfellssveit og Álftanesi og annarra staða vítt og breitt um landið enda leynast VIMA félagar á hverju strái.
Fróðlegt væri að þið leyfðuð mér að heyra álit ykkar á þessu fyrsta bréfi. Það verður svo sett inn á síðuna eftir fundinn í Kornhlöðunni næsta laugardag. Við sendum það til allra félagsbundinna svo og ýmissa annarra áhugamanna um menningarmál Miðausturlanda og ferðir.
Af mikilli hógværð lét ritnefndin ekki nafna sinna getið og skal ritnefndarfólk talið hér upp
Oddrún Vala Jónsdóttir
Birna Karlsdóttir
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir
Ég bíð nú í ofvæni eftir að menn sendi svör við getrauninni og tilkynni sig á árshátíðina.
Stend í stússi vegna Íransferðarinnar í mars, þ.e. í samningavirðræðum við sendiráð Írans í Osló til að freista þess að marsfarar geti fengið áritun sína áður en ég fer til Ómans í mánaðarlokin. Það væri hentugra í alla staði.
Gæti þó orðið snúið þar sem Eid al Adha, önnur af tveimur helstu trúarhátíðum múslima er að hefjast og þá er allt lok, lok og læs í tíu daga. Við sjáum til með það. Mun hafa samband við hópinn ef útlit er fyrir að þetta takist.
Nouria Nagi í Jemen hefur einnig tjáð mér að hún muni tæpast geta sent mér ný stúlknanöfn fyrr en um það bið sem hátíðinni lýkur af augljósum ástæðum.
Svo það er allt gott að frétta þó ég sé ansi hreint stúrin yfir því að enn vantar nokkuð á að Sýrlandsfarar hafi gert upp sína janúargreiðslu og bið menn nú að vinda að því bráðan bug.
Vona að hver sendi þetta á amk 2 kunningja og við brjótum 20 þúsund gesta múrinn í dag.
<< Home