Ómanhópur aftur fullskipaður - fundurinn á laugardag og sitthvað um vinarán

Ætla bara að segja mönnum að Ómanhópurinn er aftur fullskipaður og það er ánægjulegt hversu snaggaralega var brugðið við. Mun nú láta leiðrétta miða skv. þessu og senda upplýsingar til Ómans um breytingu.

Mjög vinaleg viðbrögð við fréttabréfi VIMA og svör við getrauninni eru að tínast inn. Hvet ykkur eindregið til að senda svör - jafnvel þó þið hafið ekki svör við öllum átta laufléttingunum.

Fyrst og fremst ætla ég þó að minna á fundinn í Kornhlöðu kl. 14 á laugardag. Auk athyglisverðrar dagskrár liggja frammi ferðahugmyndir fyrir 2007 og það er skemmtilegra en frá þurfi að segja að menn eru byrjaðir að skrá sig í þær.

Skemmtinefnd mun einnig greina frá árshátíðarmálum og gestir beðnir að tilkynna þátttöku. Þeir sem hafa þegar tilkynnt sig þurfa vitaskuld ekki að endurtaka það þó. En þetta er á miklum árshátíðartíma og við þurfum að tryggja okkur salarkynni eins og skot.

Á hinn bóginn finnst mér það afleitt til afspurnar að Jemen/Jórdaníuferðin í maí er ekki orðin full. Það er hreint til vansa. Ég hef haft samband við náungana mína í Sanaa vegna frétta þaðan og þeir staðhæfa að sætar löggur og hermenn fylgist grannt með ferðamönnum á flandri um landið til að verja þá frá öllu illu. Hóparnir sem fyrr hafa farið geta svo sem einnig staðfest líka að það er ákaflega vel passað upp á okkur svo það er hreinasta firra að vera smeykur í Jemen.

Það er best að tala hreint út:
Mannrán í Jemen eru dálítið annars eðlis en þegar slíkt gerist annars staðar. Undantekning er að þetta komi fyrir og ef það hefur gerst hefur fólkið verið á stöðum sem þeir hafa ekki leyfi til að vaða inn á. Konum er ekki rænt. Það þykir skömm að slíku. Yfirleitt er ástæða þessara örfáu rána sú að það vantar vatnsveitu í tiltekið þorp eða krafist er betri póstþjónustu osfrv.

Þegar ég bjó í Jemen 2001 var þýskum skólabróður mínum "rænt".
Yemen Times var send mynd af honum í hlekkjum en skólinn var látinn vita að þetta væri "vinarán" svo fjölskylda hans í Þýskalandi gæti verið róleg.
Piltungurinn kom aftur tveimur vikum síðar, gjöfum hlaðinn og hafði fengið meiri þjálfun í arabísku en allan veturinn í skólanum. Hann sagði að um leið og búið var að taka myndina í Yemen Times hefði hann verið leystur úr hlekkjum og slegið upp veislu og dansiballi.
Svo var samið um að bæta sorplögnina til þorpsins og allir voru kátir. Þetta er mjög jemenskt mentalítet og eiginlega alveg út í kött að taka þetta hátíðlega.
Þið græðið á að kynnast Jemen. Meira en ykkur grunar.
Það hvarflar ekki og aldrei að mér að fara með fólk á hættulegar slóðir. En látum ekki um okkur spyrjast að við þurfum að fella niður maíferðina.

Mér þætti afar vænt um ef Jemenfarar 2004 og 2003 skrifuðu inn í ábendingadálkinn.