Í sex hundruð sumur - hugleiðing fyrir lengra komna- þ.e. okkur ÖLL
Mér blöskrar:
Ég les og heyri hér og hvar hvað fáfræði sé mikil um heim Araba og almennt um heim múslima. Það sé fátt gert til að fræða okkur.
Þá setur að mér hroll og mæðu, því síðan árið 1980 hef ég skrifað um lönd araba eftir því sem ég hef heimsótt fleiri lönd. Fyrst eftir að ég byrjaði að semja greinar um málefni Arabalanda í Morgunblaðið og birta mínar merku myndir varð ég fyrir dálitlu aðkasti.
Takið eftir að þetta er EKKI sagt í píslarvottatón. Svona var þetta bara. Við vorum vön því á þeim tíma að heimurinn væri svartur og hvítur og kannski var hann það í margra augum.
Ég fékk nokkrar hringingar og menn tóku sig til og skrifuðu mér bréf
sem báru vott um miður góðan hug til Araba og til mín að " taka upp hanskann fyrir þetta óþverralið". Ég var raunar ekki að því. Mér hugnast ekki þess háttar blaðamennska eða frásagnarmáti. Það vakti einfaldlega fyrir mér að segja frá. Athugið það: Segja frá.
Því mér fannst að mörgu að hyggja og ranghugmyndir okkar voru ansi djúpstæðar.
Svo heimsótti ég fleiri lönd Araba og önnur múslimalönd og smám saman varð ég vör við að menn voru býsna sólgnir í vitneskju frá heimshluta sem var okkur sem lokuð bók - að undanskildum fáum Íslendingum sem höfðu farið þarna um og nokkrir verið búsettir þar. Þeir höfðu líka svipaða sögu að segja og ég: fáfræðin og dómharkan gekk ansi mikið fram af þeim.
Þegar ég hætti á Morgunblaðinu fyrir tíu árum og fór til Egyptalands og síðar til Sýrlands og Jemen að læra arabísku og kynnast sjálfri mér upp á nýtt, opnuðust nýjar víddir. Og enn fleira spennandi mætti mér.
Ég hafði vissulega spekúlerað í hinni svokölluðu stöðu kvenna í Arabalöndum, sem er kannski það sem hvað digruðustu og fúlustu ranghugmyndirnar eru um. En fór að rannsaka hana á nokkuð markvissan hátt og niðurstöðurnar voru forvitnilegar fyrir margra hluta sakir.
Inn á milli var ég heima og margir klúbbar, skólar, starfshópar, fyrirtæki og guð veit hvað höfðu frá því fyrsta fengið mig til að halda spaka og skemmtilega fyrirlestra um ýmislegt í þessum löndum.
Ég gerði allt slíkt með mikilli ánægju og fannst til dæmis mjög athyglisvert hvað skólar voru fljótir að taka við sér eftir að fyrri Flóastyrjöldin braust út 1991 og þá voru ekki margir framhaldsskólar hér í borg og víðar um land sem ég fór ekki og ræddi við nemendur og útskýrði fyrir þeim ýmis mál sem tengjast lífi/hugsun/hefðum og siðum/sögu og ég man ekki hvað, í þessum hluta heimsins. Þetta var ofsalega skemmtilegt.
Og fjórum dögum eftir 11.september 2001 hafði Bifrastarskólinn samband og bað mig að koma og halda fyrirlestur og skömmu síðar var ég beðin að setja á laggir hjá Mími-símenntun námskeið um Arabískan menningarheim sem hefur síðan verið haldið við æ meiri aðsókn og undirtektir þegar ég hef verið heima.
Auk þess byrjaði skólinn að hafa námskeið mín í arabísku sem hefur einnig mælst vel fyrir osfrv og svo framvegis í það óendanlega. Og áfram fyrirlestrar upp eyru eða kannski öllu heldur upp fyrir augu. Eða lengra.
Fyrir nú utan að ferðirnar okkar hafa bæst við og heim höfum við komið, þessir hópar og ég og verið margs vísari og nýr hugsunarháttur leiddi til stofnunar Vináttu- og menningarfélags Miðausturlanda þar sem fundasókn upp á 50-60 manns telst varla tíðindi.
Hefur því ekki eitthvað áunnist?
Eða er þetta eins og með efnahagsmálin: málið verður aldrei fullafgreitt. Hvað sem ég skrifa af bókum sem "byggja brú milli menningarheima" eins og sagði í umsögn þegar ég fékk viðurkenningu Hagþenkis í febrúar s.l. fyrir Arabíukonur og fleiri störf því máli tengd.
Auðvitað hefur margt gerst og hver maður sem fer í ferð VIMA eða sækir námskeið, hvort sem er í arabísku eða Menningarheimi Araba eða kemur á fundi, getur vitnað um. Fólk kemur heim með nýjar hugmyndir. Það hefur ekki endilega öðlast hina einu og " réttu" sýn. En það sér fleiri litbrigði. Skynjar hvað þessi heimur hefur margt sameiginlegt með "okkar" heimi og áttar sig á stórmerkri arfleifð og fjölbreytilegum nútíma sem er ekki alls staðar sá einn og sami.
Samt þarf að gera meira því enn les ég í blöðum að það sé svo miklil fáfræði um Arabaheiminn, heyri endalausar vitleysur um staðhæfingar-
- ekki síst hjá fjölmiðlamönnum sem vita varla skil á einföldustu atriðum. Þetta þurfum við að gera, VIMA félagar. Þess vegna erum við í þessum félagsskap og
ber skylda til að leggja okkar skerf af mörkum.
<< Home