Vegabréfin komin - skiljið eftir bloggsíðu, Ómanfarar

Vegabréfin fyrir Íransfara komu til mín í gær og bið fólk að sækja þau til mín eða láta vita ef það er ekki hægt svo ég geti þá fengið einhverja til að skutla þeim til manna því ég er í stússi og kennslu eiginlega fram á síðustu stundu.

Vil benda Ómanförum á að láta vini og kunningja hafa bloggsíðuna mína því ég mun náttúrlega reyna að gera grein fyrir því sem við aðhöfumst þar og hvernig gengur á ferðalaginu. Þá geta vinir og ættingjar skrifað kveðjur inn á ábendingarnar ef þeir vilja.

Svo vil ég absolútt taka fram að menn verða að átta sig á því að þeir bera ábyrgð á tryggingamálum sínum. Það hefur verið tekið fram margsinnis og skal ítrekað hér. Ég er ekki ferðaskrifstofa og get ekki séð um að endurgreiða ef eitthvað kemur upp á á síðustu stundu. Þetta verður að vera alveg á hreinu. Mun hafa samband við tryggingarfélögin þó og athuga hvar hagstæðast er fyrir fólk að láta tryggja sig og ef einhver hefur góða reynslu hvað þetta varðar væru allar ábendingar ákaflega vel þegnar.

Mér þykir mjög ánægjulegt að segja frá því að það er byrjað að skrá sig í ALLAR ferðir ársins 2007 - skuldbindingarlaust þó náttúrlega- og þar sem ég mun fara inn á póstinn minn reglulega skuluð þið ekki tvínóna við það. Því fyrr því betra.

Býst við að láta léttilega í mér heyra áður en við förum á mánudagsmorguninn.