Ferðabrot frá Óman

Sara Sigurðardóttir
ferðafélagi til Óman á dögunum sendi mér þetta og ég fékk leyfi til að skutla því inn á síðuna til fróðleiks.

Það var yndislegt að ganga út í hlýjuna úr flugstöðinni í Múskat höfuðborg Ómans kl 6 að morgni eftir 24 stunda ferðalag frá Íslandi
Sólin var að koma upp allt var svo hreint og fallegt . Þegar við keyrðum inn í borgina eftir pálmagöngum og blómaskrúði fram hjá óskaplega fallegum byggingum sem voru meðal annars ráðuneyti, moskur og einbýlishús hvarf að mestu þreyta eftir ferðina ; það var eins og að koma inn í draumaveröld.

Eftir hvíld á hótelinu hófst ferðalagið daginn eftir um landið. Við ferðuðumst um á jeppum, rútum, flugvélum og sigldum á bátum. Þessa daga fórum við út frá höfuðborginni Múskat til suðurs og lengst til norðurs.
Óman er mikið velverðarríki þar eru engir skattar engin kostnaður við heilbrigðismál og skólaganga er svo til frí . Svo er fallega soldáninum fyrir að þakka en hann tók við völdum kringum 1970 og er alveg ótrúlegt hvað hann hefur gert fyrir landið sitt á þessum vel rúmlega 30 árum.
Landið er feikilega stórbrotið og fallegt en mjög þurrt vegna þess að það rignir eiginlega aldrei nema í suðurhlutanum einhvern tíma á ári og þar verður allt grænt og fallegt á örfáum dögum.

Við sváfum eina nótt í tjöldum úti í eyðimörkinni og fórum við þar í mikið jeppasafarí í gulum sandinum upp og niður sandhóla og brekkur . Ég var alveg skíthrædd í byrjun en síðan magnaðist þetta upp í ótrúlega spennu og var mjög gaman eftir á.

Ég var mjög heppin með bílstjóra í jeppaferðinni .Hann sagði okkur margt og mikið meðal annars hvernig þróunin er að breytast í Múskat. Konur þar vinna í auknum mæli úti og fjölskyldumynstrið er að breytast.
Hann býr með sinni konu og tveimur dætrum í þorpi ca. 200 km. frá Múskat .Vinir hans vilja að hann flytji til höfuðborgarinnar í fjörið en hann kýs heldur halda í gamlar hefðir og vera hjá stórfjölskyldunni sem kemur saman í húsagarðinum á hverjum degi að borða og spjalla .
Svo eru það beduínarnir sem er verið að reyna að koma í hús og verið að byggja fyrir þá en þeir vilja heldur búa í sínum tjöldum og ferðast á milli.

Ég mæli með Óman sem er mjög ólíkt hinum löndunum sem Jóhanna Travel hefur farið til en ég hef heimsótt þau öll núna . En þau hafa öll sín séreinkenni og sjarma það er fróðlegt og skemmtilegt að hafa þessa reynslu í ferðabrunni mínum.