Fundagleði VIMA félaga í dag, sunnudag

VIMA félagar sópuðust á fundi í dag vegna væntanlegra ferðalaga.

Kl 14. komu Íransfarar saman og afhentir voru farmiðar, barmmerki og borðar fyrir töskur og svo listar yfir ferðafélaga og nokkur nytsamleg orð í farsi svo sem til að bjóða góðan daginn og þakka fyrir.
Margs var spurt eins og gengur og farið yfir fatnaðarmál og peningamál og ótal mörg atriði sem er nauðsynlegt fyrir menn að hafa á hreinu. Menn mauluðu ómanskar döðlur og jórdanskar smákökur með spurningum og skrafi.

Síðan komu Sýrlands/Jórdaníufarar á næsta fund kl. 15,30. Þessi hópur hefur stækkað svo mjög síðan við hittumst að mér fannst rétt að við hittumst. Þar var sama uppi á teningnum og allt fór fram með ánægju og mörgum spurningum.

Loks komu svo Jemenfélagar - fáeinir voru forfallaðir og gátu ekki sótt fundinn- og voru afar áhugasamir og jákvæðir og rifjuð voru upp skondin og skemmtileg atvik úr Jemenferðum. Stungið var upp á að hópurinn brygði sér í heimsókn í YERO miðstöðina og það er góð hugmynd og þá gætu að minnsta kosti tvær konur hitt fósturstúlkur sínar. Ætla að skrifa Nouriu Nagi um það.

Bréf frá ræðismanni Íslands í Damaskus
barst svo í morgun. Hann áréttar það sem kemur fram í áliti Stefaníu okkar Khalifeh um að ferðamenn muni eiga góða daga í Sýrlandsferðinni og ekki sé minnsta ástæða til að hafa áhyggjur.
Með þessum bréfum frá ræðismönnum okkar sem eru fulltrúar okkar í þessum löndum held ég að síðasti kvíðaneisti - þar sem vottaði fyrir honum- hafi verið slökktur.

Allir hlakka til sinna ferða og tveir eru reyndar að fara bæði til Írans í mars og svo til Sýrlands og Jórdaníu í apríl.
Takk fyrir góða fundi og glaðlegt viðhorf.