Mér er illa brugðið - en hér tjá ræðismenn Íslands sig um "ástandið"

Mér hefur hnykkt óþyrmilega við síðustu daga. Gegndarlaus vitleysismálflutningur fjölmiðla nær greinilega betur til sumra en annarra. Það mun vonandi ekki breyta neinu um ferðir okkar félagsmanna en andköf og leiðindi hafa þó óhjákvæmilega ratað til mín. Mér til verulegrar hryggðar.

Menn skyldu ákveða sig fyrr en síðar og hafa tryggingar í lagi. Á þessu hef ég hamrað frá því við byrjuðum að fara í þessar ferðir en greiðari aðgang virðast rangsnúnar fréttir hafa að eyrum sumra og verður héðan í frá valið vandlega í hópana. Ef mér er ekki treyst til að meta ástandið er til lítils unnið.

Ég bað því ræðismenn Íslands í Íran og í Jórdaníu að segja sína skoðun og þær fara hér á eftir.
Mér væri hughreysting í því að menn skrifuðu inn á ábendingadálkinn fyrir neðan greinina en umfram allt hvet ég fólk til að kynna sér Hvað er johannatravel.

Frá Stefaníu Khalifeh, ræðismanni Íslands í Amman í Jórdaníu

Mér þykir afar miður að heyra hversu rangt hefur verid farið med staðreyndir í fréttaflutningi nýverið af ástandinu i þessum heimshluta i kjölfar birtingar skopmynda af Mohameð spámanni.
Í Jórdaníu hefur lífið gengið sinn vanagang, nema það að við getum ekki keypt danskt smjör.Mótmælagöngur hafa farið fram með friðsamlegum hætti, og er ekki útlit fyrir að framhald verði á þeim.
Ég tók þá ákvörðun í öryggisskyni að taka niður íslenska fánann á ræðisskrifstofunni eftir að sendiráð Dana og Norðmanna voru brennd i Damaskus eins og hin Norðurlöndin gerðu. Íslenski fáninn er svo líkur norska fánanum að mjög auðvelt er að taka feil á þeim.
Í samtali mínu við sænska sendiherrann í Amman í gær tjáði hann mér að Svíar munu lyfta ferðabanninu á þetta svæði innan nokkra daga. Gert er ráð fyrir að aðrir fylgi á eftir.
Í vikunni komu tveir Íslendingar til Jórdaníu til að taka þátt í ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Á þessar ráðstefnur mættu bæði Danir og Norðmenn. Ráðstefnugestir mættu engu nema hlýju viðmóti þess fólks sem býr í landinu.

Síðastu 4 daga hefur írski forsetinn verið hérna í opinberri heimsókn. Hún er búin að vera á ferðalagi um svæðið og lét þetta "ástand" ekki hafa áhrif á sitt ferðalag!

Að lokum vildi ég bara hvetja ykkur að láta ekki rangan fréttaflutning villa ykkur sýn og á sama tíma aftra ykkur tækifæris til að koma á þessar slóðir.

Frá ræðismanni Íslands í Teheran í Íran
Við höfum kannað málið ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að erlendum ferðamönnum stafar ekki minnsta hætta af neinu hér. Við vonum að hópurinn sem er væntanlegur í byrjun mars, njóti ferðarinnar, og leggjum áherslu á að útlendingar þurfa alls ekki að óttast neitt hér í landi.

Svoleiðis er nú það. Verið svo væn að benda á "hætturnar" eða "ekkihætturnar." Hefur ykkur fundist þið vera í bráðri lífshættu?Til dæmis Ómanfarar nú síðast? Eða aðrir?