Nýjar námsstúlkur í Jemen - og svo hitt hvað er hættulegt og hvað ekki

Góða kvöldið öll
Sálin nálgast , var við Vestmannaeyjar áðan og ætti því að vera mætt á Drafnarstíg í fyrramálið.

Mín beið bréf frá Nouriu Nagi þegar ég kom heim í gærkvöldi þar sem hún skrifaði mér ítarlega um nýju stúlkurnar okkar í Jemen.

Eins og ég sagði ykkur fyrr þá stóð til að efna til fullorðinsfræðslu hjá YERO fyrir stúlkur á aldrinum 15-20 sem hafa aldrei fengið tilsögn í lestri. Þetta reyndist vera þrautin þyngri því fjölskyldur þeirra voru tregar til að leyfa dætrum að taka þátt í svoleiðis "óþarfa."
Nouria fékk þá snjöllu hugmynd að leysa málið með því að sameina námskeiðið - hafa lestrarkennslu og hannyrða og saumanámskeið og var þá ekki sökum að spyrja, allt fylltist á augabragði og nú eru tveir hópar stúlkna sem koma daglega í miðstöðina, fá leiðsögn í saumaskap og bróderíi og svo í lestri.

Þar með sameinar Nouria og þær YERO-konur hagnýta kennslu sem kemur stúlkunum að notum og hefur einnig fengið kennslukonur til að leiðbeina þeim um stafrófið og vonandi frekara nám.

Um tíu manns hafa þegar gefið sig fram og vilja taka þátt í að greiða 200 dollara á ári og ég á von á nöfnum stúlknanna næstu daga. Alls eru stúlkurnar um 35 svo ég vona að fleiri láti í sér heyra og hjálpi til við þetta verðuga verkefni.
Þeir leggi þá inn á reikning Fatimusjóðsins - sjá hér til hliðar en annars má einfalda málið og númerið er 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Framlög eru þakksamlega þegin og meira en það.

Nouria sagði mér einnig að "litlu" stúlkurnar okkar - sem þegar hafa styrktarmenn- 37 stæðu sig eins og hetjur og væru kappsamar og duglegar, allar með tölu. Þegar líður fram á vorið fæ ég upplýsingar um frammistöðu hverrar og einnar og kem þeim upplýsingum til viðkomandi styrktarmanna. Íslandskort er komið upp á vegg í miðstöðinni og stelpurnar biðja allar að heilsa og þakka fyrir gjafirnar sem Nouria valdi þeim fyrir upphæð sem flestir greiddu eftir foreldrafundinn okkar í desember s.l.

Mig langar að fara nokkrum orðum um fréttaflutning síðustu vikna. Það er engu líkara en ansi margir hafi orðið skelfdir vegna hans - og út af fyrir sig er mönnum það ekki láandi. Orðaflóð og gauragangur um árekstur menningarheima eins og það hefur sums staðar verið kallað hefur að mínu viti farið yfir öll skynsemis og velsæmismörk.
Þetta vita m.a. þeir sem voru með mér í Óman, friðsælu og kyrrlátu múslimalandi, síðustu tvær vikur. Þar ríkti vinsemdin ein í garð útlendinga og ég hef margsinnis sagt og get staðið við það að fólk í þessum löndum kann þá list, sem við höfum ekki alltaf á valdi okkar, að gera skilsmun á opinberum aðilum og stjórnendum og svo óbreyttum liðsmönnum sem sækja þessi lönd þeim sem vinir og áhugamenn um að kynnast þjóð, menningu og mannlífi.

Það er HVERGI ástæða til að óttast. Það mundi ekki hvarfla að mér að tefla í tvísýnu. Ég hef verið í sambandi við vini, kunningja svo og ferðaskrifstofur sem annast okkar félagsmenn í þeim löndum sem við förum til og þeim ber öllum saman um að við getum verið róleg.
Ég breytti dagskrá í fyrra þar eð nokkur vafi lék á um hvernig mál skipuðust í Líbanon. Þó er næsta víst að íslenskir ferðamenn hefðu verið öruggir en til vonar og vara fannst mér rétt að fara að öllu með gát.

Það er ekkert það að gerast nú sem vekur mér ótta um næstu ferðir en vissulega fylgist ég með og nýt þess að þarna á ég alls staðar góða að sem mundu ráða mér heilt.
Því bið ég fólk lengstra orða að treysta mér. Það er aldrei gerlegt að garantera neitt í þessu lífi. Það vita menn. En við eigum heldur ekki að vera svo einföld að gleypa fréttaflutninginn hráan og búa úr þessu rugl sem sviptir menn þeirri einstöku reynslu sem ferðirnar bjóða upp á.

Mér er gleði að segja frá því að það hafa bæst við tveir félagar í Íransferðina í mars eftir að eitt sæti losnaði þar. Fékk einnig bréf í morgun frá hjónum sem eru að fara í þá ferð þar sem þau lýsa tilhlökkun og allir Íransfarar hafa lokið greiðslu.

Fyrirspurnir vegna Sýrlands í apríl hafa sannarlega borist og allt í lagi með það og eftir þær fréttir sem ég aflaði mér í dag sé ég að þar er allt í sómarjóma og menn geta haldið áfram að hlakka til.Ef eitthvað ber út af verða félagar fyrstir til að vita það.
Við eigum góða ræðismenn á þessum stöðum sem eru færari til að meta ástandið en - leyfi mér að segja - menn hér í ráðuneytum sem hyllast til að hlaupa upp til handa og fóta með takmarkaða þekkingu og skilning.
Þetta er málið. Ekki öllu meira um það að segja.

Sjáumst á sunnudaginn.