Íransfarar í startholunum - á ég að trúa því að við náum ekki fjórum styrktarmönnum?

Þriðjudagskvöld:
Stúlkurnar hafa nú allar fengið styrktarmenn og hafa nöfn verið send stuðningsfólki. Í pistlinum hér fyrir neðan kemur fram hverjir hjálpa hvaða stúlku. Auk þess hefur verið greitt með fimmtu stúlkunni og þess vegna ætla ég að biðja Nouriu Nagi að senda mér nöfn þeirra þriggja til viðbótar sem sækja þessa fullorðins/saumakennslu. Því geta enn tveir bæst við.

Ég þakka ykkur ákaflega vel fyrir undirtektirnar.

YERO konur útbúa nú plögg til að senda til mín um hverja stúlku. Þessu verður svo komið til mín á næstunni.
Í Jemenferðinni í vor hittum við bæði yngri stúlkurnar og þær sem nú bætast við.
Mig langar til að biðja þá sem nú koma til sögunnar að senda mér myndir af sér - í pósti, ekki á tölvu og ég kem þeim til stúlknanna þar sem þær eru forvitnar að sjá hverjir eru þeirra hjálparhellur.
Tek fram að ég er með fína mynd af Bjarnheiði og Sigfinni fyrir stúlkuna Najeeba Safe. Vantar myndir af Guðrúnu Valgerði Bóasdóttur, Fríðu Björnsdóttur, Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, Ingu Jónsd. og Þorgils, Magneu Jóhannsdóttur, Ragnhildi Guðmundsdóttur, Eymar og Dögg, Erlu Magnúsdóttur, Guðrúnu Guðjónsd, Litlu fjölskyldunni, Guðmundi Péturssyni, Þóru Jónasd og Herdísi Kristjánsdóttur.
Þætti vænt um ef þið senduð mér þessar myndir á næstunni.

Íransfarar eru í startholunum, vænti ég. Brottför á fimmtudag og ég hef sent ferðafélögunum nokkra minnispúnkta. Vona við hittumst svo kát og ferðaglöð í Leifsstöð á fimmtudag og enginn gleymi neinu. Við fljúgum svo áfram til Teheran með British Airways. Vonast til að ég geti látið heyra frá okkur á föstudagskvöld eða svo. Bið menn að fylgjast með síðunni og skrifið endilega kveðjur til ykkar fólks í ábendingadálkinn. Við erum ekki í farsímasambandi en allir hafa fengið símanúmer á hótelunum sem við dveljum á.
Vegabréfin tvö komu í gær og eru þegar í höndum sinna rétthafa.

Sömuleiðis sendi ég í morgun vinalega rukkun á Sýrlandsfara í apríl og Jemenfólkið í maí og vona að allir standi í skilum.
Vil benda á að vegna forfalla geta tveir bæst við í Jemenferðina og eggja menn lögeggjan að láta þær upplýsingar ganga. Menn skyldu ekki missa af Jemen. Það er upplifun per se.

Ég þakka þeim sem styðja Jemenstúlkurnar okkar nýju en hef ekki fengið styrktarmenn fyrir fjórar en vona að einhverjir láti í sér heyra. Trúi ekki að menn klikki á því.
Á hinn bóginn hafa peningar verið sendir fyrir þær allar og borgar Fatimusjóðurinn amk í bili fyrir þær sem hafa ekki styrktarmenn. Upphæðin er ekki stór og ég trúi ekki að marga muni um þessa upphæð enda skulum við hafa hugfast að það er hreint með ólíkindum hvað mikið þeim YERO konum tekst að láta þessa 200 dollara endast. Stúlkurnar sem eru í sauma- og lestrarnáminu fá allt efni sem til þarf, hvort sem er bækur og ritföng og til verklegrar kennslu. Einnig má stúlkurnar máltíðir í miðstöðinni, læknisskoðun og bólusetningar og styrk til fatakaupa ef þær eru mjög fátækar - og þær eru það raunar allar.

Sömuleiðis má taka fram að sjóðurinn greiðir til tveggja kennara sem annast fullorðinsfræðsluna og hjálpa yngri krökkunum við heimanámið.