Árshátíð í mestu kæti - "aðvörunum" aflétt í Sýrlandi

Í gærkvöldi, föstudag, efndi VIMA til fyrstu árshátíðar sinnar og mættu á fjórða tug kátra félaga í Kornhlöðuna og skemmtu sér dátt.
Skemmtinefndin hafði skreytt salinn hátt og lágt svo að til sóma var, alls konar sprell var í gangi, m.a. drógu menn um sæti og var sætanúmer með arabiskum tölum svo menn máttu einbeita sér nokkuð að því að finna stóla sína.
Útbúin var prentuð dagskrá, einkar smekkleg og konur komu flestar búnar sínum fegurstu kjólum, keyptum í löndum Arabíu.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir var veislustjóri og stóð sína plikt af skörungsskap eins og hennar var von og vísa. Magadansmeyjar léku listir sínar og höfðu menn á orði að þær tækju fram magabólgupíum og beinasleggjum sem við höfum séð í ferðunum. Einar Þorsteinsson flutti gamanmál og limrur og Elísabet Jökulsdóttir og bandaríski trommarinn Aldjea voru með gjörning.

Maturinn var sérdeilis gómsætur og kaffi og konfekt á eftir og allt rann ljúflega niður.
Mér þykir sérstök ástæða til að þakka skemmtinefndarfólki, Ingu Ingimundardóttur, Huldu Waddel og Erni Valssyni(Gulla), Álfhildi Hallgrímsdóttur og Þóru Jónasdóttur fyrir góða og hugvitssamlega framkvæmd og voru allir á einu máli um að hér hefði tekist vel til.

Samt get ég ekki varist því að setja út á það að of margir tilkynntu komu sína og mættu síðan ekki eða greindu frá forföllum ALLTOF seint. Það gengur náttúrlega ekki þar sem matur á slíka samkomu er að sjálfsögðu pantaður fyrirfram og skal greiða í samræmi við það. Þetta þykir mér ekki íþróttamannsleg framkoma.

Það breytir ekki því að gleðin var ríkjandi og fóru menn sælir og saddir heim og hlakka til þeirrar næstu.

Sýrland tekið af "válistanum."
Vert er að geta þess að Danir hafa sent sendiherra sinn aftur til Damaskus á Sýrlandi og aflétt þeim af viðvörunum sem giltu um ferðir þangað. Satt að segja fannst mér þessi svokallaða viðvörun ekki ýkja gáfuleg og úr takti við virkileikann. En er út af fyrir sig gott mál að þessari hysteríu er að ljúka og geta menn þá andað léttar ef þeim hefur verið eitthvað þungt fyrir brjósti.

Íransfarar byrjaðir að strauja
Svo líður senn að því að næsti hópur haldi á vit ævintýra og upplifana því nítján manns fara til Írans á fimmtudaginn. Bið menn endilega að fylgjast með hér á síðunni og hvet Íransfara til að láta vini og ættingja hafa aðsetur síðunnar svo að þeir geti fylgst með okkur. Ég veit ekki til að við höfum farsímasamband við Íran en netkaffi eru þar á hverju strái og ég skrifa inn á síðuna eins oft og því verður við komið.
Þá skal þess getið að vegabréf tveggja væntanlegra Íransfara sem bættust við eftir að tveir forfölluðust eru nú á leiðinni frá sendiráði Írans í Osló og skila sér væntanlega á mánudag. Estrid Brekkan í sendiráði Íslands þar í borg hefur sem fyrr verið hjálparhella í því máli og takk fyrir það.