Beðið eftir Rúdolf - allt fór vel með Jemenstúlkur

Blessaðan bjartan daginn

Þá er allt tilbúið, vona ég og nú bíð ég bara eftir að Rúdolf leigubílstjóri komi og pikki mig og nokkrar Íranslafðir upp, en við sláum saman í bíl út á völl. Fékk í morgun imeil frá frúnni okkar hjá skrifstofunni í Íran, hún hlakkar til að hitta okkur og kemur á Laleh hótelið annað kvöld og borðar með okkur.
Á völlinn í Teheran mun mæta gædinn sem verður með okkur dagana þar og þá sem við förum til Kaspíahafsins. Hún heitir Leily Lankari, elskuleg kona sem ég hef hitt í báðum reisum mínum til Írans árið 2005.

Svo sé ég að Sýrlandsfarar hafa verið ötulir að borga og nú hafa þó nokkrir lokið greiðslu og gott er nú það enda mun bankastúlkan mín senda út síðustu greiðslur í það ferðalag meðan ég er í burtu og allt þarf að vera í hinu besta lagi.

Gleðilegt er frá því að segja að allt fór vel með Jemenstúlkurnar okkar og allar átján hafa nú styrktarmenn. Þar með erum við með á okkar könnu þær sem taka þátt í fullorðinsfræðslunni hjá YERO og er mikil eftirvænting hjá stúlkunum að fá myndir af þeim sem hjálpa þeim.

Bið Margréti Guðmundsdóttur að senda mér mynd af þeim Brynjólfi. Þau voru í burtu sl. nóvember og náðist ekki að fá mynd af þeim.

Fékk í gær myndarlega sendingu frá ferðaskrifstofunni okkar í Óman, þar var heilsíðugrein úr Oman Observer með myndum og viðtölum við félagana í sólarlagssiglingu á Ómanflóa síðasta daginn. Guðlaug ætlar að sjá um að ljósrita þetta og hafa tilbúið fyrir myndakvöldið okkar sem verður efnt til fljótlega eftir að Íranferð lýkur. Guðlaug ætlar líka að hafa samband um hvar og hvenær við hittumst.

Muna svo endilega að senda síðuna áfram. Læt frá okkur heyra fljótlega.
Sæl að sinni.