Áhugi á ferðum til Líbanons á næsta ári?

Sæl öll
Hef fengið dálítið af fyrirspurnum um ferðir til Líbanons upp á síðkastið. Því miður var Líbanon sett út af sakramentinu hjá okkur eftir morðið á Hariri fyrv. forsætisráðherra í fyrra. Nú virðist ró og friður vera í landinu og ekki útlit fyrir annað en það haldist.

Ég hef því sent ferðaskrifstofunni okkar í Líbanon fyrirspurn og beðið hana að senda mér áætlun og verðhugmynd um 7-9 daga ferð þangað á næsta ári, 2007. Það gildir það sama og með aðrar ferðir að lágmarksþátttakendur þarf, ella verður ekki af ferð. Þetta vita svo sem allir og ætti að vera óþarft að taka það fram en geri það svona til vonar og vara.

Þarf að fá viðbrögð hjá ykkur hvort ég á að halda áfram þessu dæmi og þætti því vænt um að heyra frá ykkur um málið. Get ekki sent neinar nánari upplýsingar um dagsetningar fyrr en ég veit hvort áhugi er á þessu. Því er nauðsynlegt að þið látið í ykkur heyra.

Það er líka rétt að fram komi að ferð til Írans árið 2007 verður í mars og engin haustferð. Vinsamlegast látið vita um áhuga. Þetta má lesa um undir linknum Væntanlegar ferðir hér á síðunni.

Nokkrir hafa skráð sig í Ómanferðina í febrúar 2007 og vildi gjarnan heyra frá fleirum.

Útlit er fyrir að ferðin til Jemen/Jórdaníu um páskana 2007 sé að fyllast og hafið því samband fyrr en síðar sem og Sýrland í september.

Sé ekki betur en Azerbadjan, Armenía og Georgía verði fullskipuð.

Það getur verið að ykkur þyki erfitt að ákveða með svo löngum fyrirvara en eins og ég hef margsinnis hamrað á verður að ákveða sig með mjög góðum fyrirvara í allar ferðir VIMA.
Á aðalfundinum seinni hluta þessa mánaðar liggja frammi upplýsingar um ferðirnar 2007 en fyrir þann tíma þarf ég samt að hafa skýrari hugmyndir um áhuga ykkar.