Jemenfarar ljúki nú greiðslu

Þætti vænt um ef Jemenfarar lykju greiðslu 1.-5.apríl. Að vísu hafa sumir þeirra þegar gert það og er það lofsvert.

Þá hef ég fengið imeil frá Nouriu Nagi um nýjar stúlkur og birti nöfn þeirra og styrktarmanna vonandi á fimmtudag. Þar sem þrír karlar hafa bæst í hópinn stakk ég upp á því við Nouriu að VIMA félagar tækju að sér þrjá stráklinga þegar næsta skólaár hefst og var hún glöð yfir því.

Ýmsir hafa borgað inn á Fatimusjóð, stakar greiðslur, og einn VIMA félagi sem verður að hætta við Íransferð í haust vegna veikinda ákvað að láta staðfestingargjaldið sitt renna í sjóðinn og hjartanlega þakka ég fyrir það - mun ég á næstu dögum senda næstu greiðslu vegna launa til kennara. Svo þetta gengur allt fagurlega.

Þá hef ég sent til YERO tölvumyndir af nokkrum styrktarmönnum en aðrar myndir hef ég í pússi mínu í maí þegar hópur fer til Jemen. Þá ætlum við einnig að heimsækja miðstöðina og hitta stúlkurnar og ekki síður langar mig að VIMA fólk sjái aðstöðuna þar og hitti Nouriu. Vantar enn nokkrar myndir, elskuríkast annað hvort pósta þær til mín eða senda mér á tölvu. Ekki láta það lenda í útideyfum, þær langar þessi ósköp að sjá sína styrktarmenn.

Læt svo Íransfélaga haustsins fljótlega vita um greiðslur sem þeir hefji 1.maí.
Ömmustelpa nokkur Þórhildur Helga Hrafnsdóttir er hvorki meira né minna en sjö ára í dag og það þótti manni fínt í þann tíð og er auðvitað enn. Til hamingju, Tóta.
Gott í bili.