Myndakvöld í fögnuði hjá Ómanferðalöngum

Flestir úr Ómanferðinni hittust í kvöld, miðvikudag, á Litlu Brekku og urðu fagnaðarfundir. Svo var myndasýning af öllu tagi og upplifðu menn ferðina með æjum og óum upp á nýtt.
Við máttum varla vera að því að fá okkur ágætis kjúklingasalat vegna myndaskoðunar en síðan sneru menn sér að því af fullri einurð og fengu sér kaffi og íranskt sælgæti og súkkulaði á eftir.
Man ekki hvort ég tók það fram að blaðamaður Oman Observer sendi mér ljósrit af frásögninni um fyrsta íslenska hópinn í Óman og Gulla Pé hafði útbúið ljósrit og afhenti hverjum og einum.

Þetta var einkar vel heppnað og mæting góð þó einstaka félagi hefði orðið að boða forföll.
Eins og er við hæfi var skálað fyrir Óman og okkur og til lífs og til gleði og ég sagði frá því hvað Íransferðin fyrsta á dögunum hefði tekist vel.
Þegar heim kom beið mín imeil frá Ruedi Seiz, ferðaskrifstofuforstjóra í Óman þar sem hann vissi um dagsetningu myndakvölds og bað hann fyrir kærar kveðjur til hópsins og er þeim hér með komið til skila.

Íranshópur hittist svo fljótlega eftir að ég kem úr Sýrlands/Jórdaníuferð og ekki vafi á því að þar verður margt að skoða og skilgreina.

Það lítur út fyrir að bætist í Jemenferðina í maí og gott er að ég heyri í ykkur sem allra fyrst varðandi það mál. Þarf að ganga frá því áður en ég fer til Sýrlands 6.apríl.

Tek fram í leiðinni vegna ábendingar sem Ingveldur skrifaði inn á síðasta pistil að ég verð á Akureyri 29.mars og kem með vélinni sem fer héðan 11. Verð svo með fyrirlestur frá hálf fjögur til kl 5 og heimferð kl. 6 um kvöldið. Get því miður ekki verið lengur en ef Ingveldur sér smugu á þessum tíma væri mér óblandin kæti að hitta þau Akureyringa.