Íransfarar eru mættir og heilir á húfi og vel það - einnig áríðandi til annarra félaga

Góða nótt/daginn eftir því sem verkast vill.

Íransfarar lentu um miðnætti og ég bið kærlega að heilsa þeim sem ekki gafst kostur á að kveðja á flugvelli.
Við vorum öll nokkuð lúin því skv. minni klukku er rífur sólarhringur síðan við sátum að morgunveðarborðinu í Laleh hóteli í Teheran. Vona að allir nái sér vel og dægilega í dag og um helgina og sálir skili sér svona heldur skikkanlega.
Allir voru ánægðir með ferðina, vona ég að óhætt sé að segja og ferðin með Britsish Airways frá Teheran til London gekk ósköp þægilega fyrir sig. Svo var rúmlega sex tíma bið í London eftir íslensku vélinni, einstaka fóru inn í borg en flestir dunduðu sér á flugvelli og tími leið undra fljótt.

Þetta var hin merkasta ferð, brautryðjendastarf sannarlega, en hópurinn var sérlega samstilltur og féll saman eins og flís við rass. Varla nokkur vandamál sem tekur því að minnast á og við fengum afar góða aðstoð á Teheran flugvelli í morgun hjá Leily leiðsögumanni og Litla Jóni sem aðstoðuðu óspart og var launað að makleikum.


Flugleiðavélin tafðist aldrei þessu vant um klukkutíma hjá Heathrow en enginn setti það fyrir sig.

Myndakvöld þessa hóps verður svo síðari hluta apríl þegar myndir hafa verið framkallaðar og sálir hafa skilað sér dyggilega og ég kem frá Sýrlandi 21.apríl.

Ítreka að skyndilega hafa losnað tvö sæti til Sýrlands sem er hið flóknasta mál þar sem allir miðar hafa verið greiddir og herbergi bíða okkar.

Bið vinsamlegast menn athuga snöfurlega nýja áhugamenn um Sýrlandi að hafa samband og það fyrr en síðar svo allt verði nú í lagi þar.

Ég hef satt að segja ekki efni á því að tapa meiru vegna afpantana sem enginn rökstuðningur er fyrir.

Þegar ég rúllaði yfir aðdáendabréfin nú áðan sé ég að einn tilvonandi og fyrverandi félagi hafði sent athugasemd til Ferðamálaráðs sem ég hélt að hefði verið afturkallað. Upphefst nú eitt ferðaskrifstofuruglið og þvargið.

Það eru mér vonbrigði því þeir sem féllu út úr Íransferð fengu endurgreitt án þess að þurfa að leggja fram svo mikið sem læknisvottorð hvað þá annað. Er verulega súr og sár yfir þessu.Það er lítið gaman að vera að þessu ef má búast við svona smáskömmtum.

Minni Ómanfara á myndakvöld senn en Gulla Pé hefur sent tilkynningar um það og bið þá sem vita að hafa samband við Gullu gudlaug.petursdottir@or.is til að greina frá þátttköku en vona vissulega að allir sjái sér fært að mæta.

Mun svo tilkynna Sýrlands/Jórdaníuförum á morgun eða hinn hvenær miðaafhending í þá ferð fer fram og sé ekki betur en flestir og kannski allir hafi greitt að fullu.

Munið endilega að tvö sæti hafa losnað þar og væri gaman ef við gætum fyllt þau. Bið ég ykkur að láta mig heyra frá ykkur.

Sofið svo vel og kærlegustu þakkir til Íransfólks fyir makalaust góða ferð.