Bætist í Jemenhópinn sem VIMAfélagar styrkja - auðgun Írans

Gott kvöld félagar vænir

Þá hafa bæst við þessar þrjár stúlkur á fullorðinsfræðslunámskeiðinu í Sanaa sem við ætlum að styrkja. Eins og hefur komið fram eru þær bæði í lestrarkennslu og saumaskap því nokkrar eru læsar en vilja bæta við sig í þeirri kúnst og eins er kennsla í saumaskap, sniðum og hannyrðum alls konar.

Stúlkan Fairous Al Hamyari sem nýtur stuðnings Ragnhildar Árnadóttur hefur bæst í hóp þeirra sem vilja læra saumaskap og sníðamennt. Johannatravel styrkir hana í það námskeið.

Birna Sveinsdóttir styrkir Afafe Alobeydi sem er tvítug, ógift, kann nokkuð fyrir sér í lestri en vill bæta við sig starfsþjálfun.

Elín Ösp Gísladóttir styrkir Ebtesam Al Makalee sem er 21 ár, gift og á eitt barn. Er stautandi en þarf meiri þjálfun.

Mér skilst á Nouriu Nagi, forstöðumanni YERO að allar stúlkurnar á fullorðinsfræðslunámskeiðinu standi sig vel, mæti samviskusamlega og sýni kapp og áhuga. Fæ plögg um þær allar átján - svo og litlu stelpurnar okkar 37 þegar maíhópur VIMA fer í Jemen/Jórdaníuferðina í maí.

Á morgun verður greitt fyrir þessar stúlkur úr Fatimusjóðnum, svo og laun eins kennara eins og um var talað. Næsta haust bætum við svo við fjórum strákum og vona rétt að allir stuðningsmenn verði með áfram.

Þar með skilst mér að Fatimusjóðurinn styrki allar stúlkurnar átján sem sækja námskeiðið og er það frábær árangur.

Stuðningsmenn hinna 15 hafa allir fengið nöfn sinna stúlkna. Aftur á móti vantar mig enn fullt af myndum af ykkur. Verið svo væn að senda mér þær svo ég geti haft þær með.

Auðgun Írans
Hef fengið fullt af imeilum vegna greinar Þuríðar Árnadóttur í Mogga í gær sem hafði þessa eftirtektarverðu og margræðu fyrirsögn. Þau viðbrögð eru öll á eina lund eins og greinin verðskuldar.
Hef fengið leyfi til að setja greinina inn á síðuna og vona það verði á morgun og get fullyrt að hún er ekki aðeins skemmtileg og myndræn heldur bráðholl lesning.