Sýrlandsfarar mættir eldhressir á svæðið

Sæl öll
Við Sýrlands og Jórdaníufarar lentum heilu og höldnu síðdegis og allir glaðir og hressir en nokkuð syfjaðir. Kvöddust menn með virktum og höfðu áður skipað sérstaka myndanefnd og í henni sitja Sveinn Haraldsson, Högni Eyjólfsson, Vera Illugadóttir og Þorgeir Níelsson. Svo mikið var tekið af myndum í ferðinni að öll met voru slegin og því þótti tilvalið að myndanefnd skipulegði myndamálin og tekur hún ugglaust til starfa þegar sálir hafa skilað sér.

Í gærkvöldi borðuðum við á þeim fallega stað Omijadveitingahúsinu í Damaskus en áður hlýddum við á sögustund Shadi við mikla hrifningu enda fór hann á kostum.
Í Omijad var borðað og skrafað og Sveinn Einarsson flutti brag sem fundist hafði á göngum hótelsins og augljóst af honum að viðkomandi höfundur þekkti til hópsins. Svo skáluðum við fyrir ferðinni, ég þakkaði gleðilegar stundir og tveir dervisjdansarar snarsneru sér af listfengi fyrir okkur. Forstjórinn okkar Abdelkarim Al Jundi sem hefur sinnt okkur af einstakri alúð og rausn mætti til að færa öllum í hópnum gjafir, konfektkassa og almanak.

Héldum snemma heim á hótel svo menn gætu lagt sig og svo út á völl kl. 1,30 í nótt að sýrlenskum tíma.
Tókst með harðfylgi að fá farangurinn tjekkaðan alla leið og vona að allt hafi skilað sér því ég hafði ekki tök á að þríkyssa alla.
Mér fannst allir vera mjög ánægðir með ferðina og Sýrland og Jórdanía, fólk og saga og hvaðeina hefur eignast fjölda nýrra aðdáenda eftir hana.

Aðalfundurinn fljótlega

Innan tíðar, trúlega 6. maí verður aðalfundur VIMA haldinn í Kornhlöðunni og dagskrá og dagsetning nánar auglýst um eða upp úr helginni. Þar verður ýmislegt á dagskrá fyrir utan aðalfundarstörf svo ég vona að menn taki 2 klukkutíma frá og mæti vel og stundvíslega þegar þar að kemur.

Myndakvöld Íranshópsins
hefur verið undirbúið meðan ég var í burtu og nánar um það líka fljótlega. Þar skyldu allir Íransfarar í mars mæta og eiga saman góða stund.

Næstu ferðir
Í Sýrlands/Jórdaníuferðinni núna pöntuðu allmargir sér í ýmsar ferðir VIMA á árinu 2007 enda sé ég ekki betur en uppselt sé í Íransferðina í september og því ráð að hugsa fram í tímann. Sýnist sem menn ættu að hafa samband fljótlegast þeir geta. Trúlega verður dagskrá 2007 að nokkru leyti tilbúin og mun liggja frammi á aðalfundinum þann 6.maí. Enn geta tveir bæst við í Jemenferðina 7.maí.

Ekstrakveðja til Sýrlandsfaranna
Guðmundur Pétursson mælti þau vísu orð í einni ferða okkar að við ættum ekki að bera saman þessi lönd heldur njóta hvers á eigin forsendum og því er ég hjartanlega sammála. Samt langar mig að segja að ég held að varla hafi fyrr í ferð ríkt öllu meiri kátína, samstaða og algert kvörtunarleysi en í ferðinni núna í apríl. Þakka félögum ástamlegast fyrir samveruna og við verðum í sambandi.

Jemenfarar búist til ferðar
þann 7.maí n.k. Lítill hópur en valinkunnt sómafólk skipar hann. Fundur til að úthluta ferðagögnum og miðum verður fljótlega. Verið svo væn að fylgjast vandlega með.