36 þúsund perlur

Þrjátíu og sex þúsund lýsisperlur lögðu af stað til Jemens í dag, bara svo þið vitið af því. Lýsi h.f. veitti rausnarlega fyrirgreiðslu svo ég fékk allar perlurnar fyrir jafnvirði 20 þúsund perlna þegar frá því var skýrt hvert væri meiningin að senda og hvers vegna væri verið að kaupa þetta magn.
Mér fannst þetta sérlega höfðinglegt af Katrínu forstjóra Lýsis og þakka fyrir.
Var að íhuga að hafa þetta í farangri á sunnudagsmorgun en mér óx í augum að rogast með 17 kíló auka svo ég sendi það flugleiðis og stúlkan hjá Íslandspósti horfði á mig eins og naut á nývirki þegar ég spurði hvort ég fengi ekki afslátt. Og veitti auðvitað ekki afslátt enda hafði hún ekkert umboð til þess, litla skinnið.
Nokkrir hafa lagt greiðslur inn á Fatimusjóðinn vegna lýsismálanna. Takk fyrir það og væri ljúft ef fáeinir bættust við.

Einn VIMA félagi kom í gærkvöldi og færði mér 200 evrur sem eiga að fara til YERO og auk þess ætla ég að láta miðstöðina fá upphæð til styrktar kennurunum og ef til vill einhverra tækjakaupa m.a. vegna starfsnámsins.

Nokkrir eiga eftir að koma til mín myndum. Væri nú gott að fá þær. Það er leiðinlegt að skilja einhverjar útundan. Þeim finnst svo ofboðslega spennandi að fá þessar myndir af stuðningsfólkinu sínu.

Minni Íransfara í mars s.l.
á myndakvöldið á fimmtudagskvöld kl. 18.

Minni Íransfara í september
á að greiða fyrstu greiðslu. Vantar enn þrjár greiðslur og alúðlegast vippið ykkur í það í dag. Vænti þess að allir hafi fengið sér forfallatryggingu og ég pósta svo jafnótt kvittanir til ykkar.
Vegna veikindaforfalla er mögulegt að bæta tveimur við í septemberferð.

Einn góður félagi sendi mér í gær imeilið hjá forseta Írans, Ahmedinedjad og mér fannst ráð að skrifa honum nokkrar línur og tilkynna komu okkar og segja á okkur deili.
Hef að vísu ekki fengið svar en það er ekki að marka, hann fær sjálfsagt kássu af bréfum.
Gott að hafa imeilið, þá get ég haft samband við hann seinna í sumar og beðið hann að ýta á sendiráðið í Osló sem veitir okkur áritanir og hefur stundum verið duggulítið svifaseint.

Minni svo alla
á aðalfundinn á laugardaginn kl. 14 í Kornhlöðunni.